Bjarn­heiður Halls­dóttir, for­maður Sam­taka ferða­þjónustunnar, furðar sig á texta tón­listar­mannsins Auðuns Lúthers­sonar, betur þekktur sem Auður og telur hann upp­hefja vímu­á­stand í laginu „Freðinn.“ Bjarn­heiður lýsti hugsunum sínum á Face­book um helgina eftir að hafa fylgst með tón­listar­manninum flytja lög sín á Arnar­hóli á Menningar­nótt.

„Greip í gær­kvöldi niður í tón­listar­veislu Rásar 2 á Arnar­hóli. Þá var á sviðinu ungur maður sem kallar sig Auður og hefur verið mikið hampað og hlaut m.a. 8 til­nefningar til ís­lensku tón­listar­verð­launanna árið 2018 fyrir plötu sína Af­sakanir,“ skrifar bjarn­heiður.

Hún segist hafa heyrt hann syngja lagið „Freðinn,“ sem sé hans stærsti „hittari“ en Bjarn­heiður tekur fram að hún þekki ekert til tón­listar­mannsins eða hans sögu. „En það var eitt­hvað sem argaði innan í mér við að hlusta á textann sem hann söng. Þar er hann sem sagt "freðinn" eða í dóp­vímu og túlkunin er þannig að það sé bara mjög eðli­legt á­stand að vera í vímu,“ segir Bjarn­heiður.

Hún segir að fyrir börn gæti þetta virkað sem eftir­sóknar­vert. „Fyrir börn, sem ég er viss um að hlusta á þennan tón­listar­mann (13 ára sonur minn þekkti hann), gæti þetta virkað sem eftir­sóknar­vert, skemmti­legt og eðli­legt. Upp­hafning vímu­á­stands. Því miður hafa allt­of margir kynnst af­leiðingum þess af því að vera reglu­lega "freðinn" og ó­þarfi að fara nánar út það hér.“

Bjarn­heiður segist vera full­með­vituð um rit-og tjáningar­frelsi og vita vel að börn og ung­lingar hafi greiðan að­gang að hverju sem er á netinu.

„En í gær var þessi ef­laust á­gæti lista­maður að syngja snemma kvölds á fjöl­skyldu­skemmtun, sem var sjón­varpað beint á RUV, sem ó­neitan­lega gefur at­riðinu vægi og "normal­iserar" það á vissan hátt. Hvernig á að út­skýra fyrir börnum að boð­skapurinn sem þessi marg­lofaði og vin­sæli lista­maður flytur sé vondur? Hvernig sam­ræmist þetta for­varnar­starfi? Eða finnst fólki þetta al­mennt bara allt í lagi?“