Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, furðar sig á texta tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar, betur þekktur sem Auður og telur hann upphefja vímuástand í laginu „Freðinn.“ Bjarnheiður lýsti hugsunum sínum á Facebook um helgina eftir að hafa fylgst með tónlistarmanninum flytja lög sín á Arnarhóli á Menningarnótt.
„Greip í gærkvöldi niður í tónlistarveislu Rásar 2 á Arnarhóli. Þá var á sviðinu ungur maður sem kallar sig Auður og hefur verið mikið hampað og hlaut m.a. 8 tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2018 fyrir plötu sína Afsakanir,“ skrifar bjarnheiður.
Hún segist hafa heyrt hann syngja lagið „Freðinn,“ sem sé hans stærsti „hittari“ en Bjarnheiður tekur fram að hún þekki ekert til tónlistarmannsins eða hans sögu. „En það var eitthvað sem argaði innan í mér við að hlusta á textann sem hann söng. Þar er hann sem sagt "freðinn" eða í dópvímu og túlkunin er þannig að það sé bara mjög eðlilegt ástand að vera í vímu,“ segir Bjarnheiður.
Hún segir að fyrir börn gæti þetta virkað sem eftirsóknarvert. „Fyrir börn, sem ég er viss um að hlusta á þennan tónlistarmann (13 ára sonur minn þekkti hann), gæti þetta virkað sem eftirsóknarvert, skemmtilegt og eðlilegt. Upphafning vímuástands. Því miður hafa alltof margir kynnst afleiðingum þess af því að vera reglulega "freðinn" og óþarfi að fara nánar út það hér.“
Bjarnheiður segist vera fullmeðvituð um rit-og tjáningarfrelsi og vita vel að börn og unglingar hafi greiðan aðgang að hverju sem er á netinu.
„En í gær var þessi eflaust ágæti listamaður að syngja snemma kvölds á fjölskylduskemmtun, sem var sjónvarpað beint á RUV, sem óneitanlega gefur atriðinu vægi og "normaliserar" það á vissan hátt. Hvernig á að útskýra fyrir börnum að boðskapurinn sem þessi marglofaði og vinsæli listamaður flytur sé vondur? Hvernig samræmist þetta forvarnarstarfi? Eða finnst fólki þetta almennt bara allt í lagi?“