„Við erum búin að leggja þvílíka vinnu í þetta og erum alveg gáttuð á vinnubrögðunum í þessum tilboðum. Þetta er mjög skýrt, við þurfum að ná að aka einstaklingum í hjólastólum, það var mælt nákvæmlega upp hvað við þyrftum af svoleiðis og skiljum ekki af hverju það var ekki boðið,“ segir Erlendur Pálsson, sviðsstjóri í farþegaþjónustu hjá Strætó.

Nokkur fyrirtæki hafa kært útboð Strætó á akstursþjónustu fatlaðra til kærunefndar útboðsmála. Sex tilboð bárust, á bilinu 2,9 til 4,3 milljarðar króna. Hópbílar urðu fyrir valinu, en fyrirtækið átti fjórða lægsta tilboðið, upp á ríflega 4,2 milljarða króna. Gerð er krafa um að 25 sérútbúnir bílar séu tilbúnir 1. júlí og 45 bílar 1. september. Skulu vera pláss fyrir tvo hjólastóla í hverjum bíl.

Um mánaðamótin var þjónustan aðskilin frá starfsemi Strætó og heitir þjónustan nú Pant akstur. Pant akstur mun sinna akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum Kópavogi og Hafnarfjarðarbæ.

Helgi Þór Guðmundsson, forstjóri Akstursþjónustunnar sem hefur sinnt þjónustunni, segir að hann sé mjög hissa á ákvörðun Strætó, sérstaklega þar sem Akstursþjónustan hafi boðið 3,2 milljarða. „Við hjá Akstursþjónustunni erum mjög hissa á ákvörðun Strætó sem túlkar innsend tilboð með undarlegum og ófyrirsjáanlegum hætti þannig að enginn bjóðandi stenst hæfniskröfur við fyrstu yfirferð,“ segir Helgi.

Helgi Þór Guðmundsson, forstjóri Akstursþjónustunnar“Við hjá Akstursþjónustunni erum mjög hissa á ákvörðun Strætó sem túlkar innsend tilboð með undarlegum og ófyrirsjáanlegum hætti þannig að enginn bjóðandi stenst hæfniskröfur við fyrstu yfirferð”

„Í kjölfarið er Hópbílum einum boðið í skýringarviðræður og gefið færi á að leggja fram frekari upplýsingar og gögn, jafnvel þótt aðrir hafi boðið allt að 1,3 milljörðum króna lægra verð. Sambærilegar viðræður við Akstursþjónustuna hefðu leitt í ljós að við uppfyllum allar kröfur útboðsins, enda sinnum við þessari þjónustu í dag við góðan orðstír.“ Telur Helgi að jafnræðis hafi ekki verið gætt í vali á tilboðum og því hafi niðurstaðan verið kærð.

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snælands Grímssonar ehf., tekur í sama streng. „Ég sagði þeim að við værum með erlendan aðila sem væri með þessa bíla klára fyrir okkur ef við vildum. Við ætluðum ekki að kaupa 25 bíla án þess að vera með samninginn, síðan þyrftum við að kaupa aðra 20 fyrir september,“ segir Hallgrímur. „Það er mjög sérstakt að fella út fjögur lægri tilboð.“

Erlendur segir að ástæðan fyrir því að ekki var haft samband við fyrirtækin til að ræða við þau um útfærslur sé skortur á lagaheimild.

„Það er einfaldlega vegna þess að við höfðum ekki lagaheimild til þess að ganga til viðræðna við fyrirtækin. Mér skilst á lögfræðingunum að þegar það er svokölluð skal-krafa í útboði, eins og í þessu tilfelli að það skuli vera pláss fyrir tvo hjólastóla, þá er tilboðunum vísað frá ef krafan er ekki uppfyllt,“ segir Erlendur. „Við höfðum ekki heimild til ganga til viðræðna við þessa aðila. Skal-krafa er eitthvað sem má ekki bjarga eftir á.“