Innlent

Gang­brautar­­­pabbi til­­kynnti öku­fant til lög­­reglu

Jóhannes Tryggva­son, faðir barns í Vestur­bæjar­skóla, horfði á eftir bíl bruna yfir á rauðu ljósi þegar hann var á gang­brautar­vaktinni í morgun. Hann til­kynnti brotið til lög­reglu og segir skömm að því að barn hafi þurft að slasast til þess að brugðist væri við í­trekuðum kvörtunum for­eldra.

Jóhannes hefur staðið gangbrautarvaktina við Hringbraut síðan ekið var á stúlku á leið í skólann í fyrradag. Í morgun horfði hann gáttaður á bifreið ekið yfir á rauðu ljósi. Fréttablaðið/Samsett

Jóhannes Tryggvason, kvikmyndagerðarmaður og faðir átta ára barns í Vesturbæjarskóla, horfði í forundran á bifreið ekið greiðlega yfir á rauðu ljósi þegar hann var við gangbrautarvörslu á mótum Hringbrautar og Framnesvegar í morgun.

Jóhannes hefur staðið vaktina í gulu vesti á gatnamótunum og fylgt börnum yfir götuna síðustu tvo morgna, eftir að ekið var á stúlku á næsta horni við mót Hringbrautar og Meistaravalla.

Sjá einnig: Gönguverðir við tvenn gatnamót Hringbrautar í morgun

„Mér finnst þetta sérstaklega ósvífið þar sem ég stend þarna í sýnileikavesti við hornið með barn við hliðina á mér,“ segir Jóhannes í samtali við Fréttablaðið. Hann tók niður númerið á bílnum og tilkynnti umferðarlagabrotið til lögreglu.

Miklar og heitar umræður hafa verið um umferðaröryggismál við Hringbraut eftir að slysið varð á miðvikudagsmorgun en Jóhannes segir ljóst að hún nái ekki til allra sem aka um Hringbrautina.

„Stöð 2 náði mynd af einum í gær og svo horfi ég á annan gera þetta núna. Traffíkin er alltaf jafn hröð en þetta er eina tilfellið þar sem ég sá fara yfir á beinlínis eldrauðu,“ segir Jóhannes sem ætlar að sjá til hvernig lögreglan bregst við ábendingu hans.

Sjá einnig: Gísli Marteinn vill þrengja Hringbraut

Reykjavíkurborg brást snarlega við eftir slysið í fyrradag þannig að gangbrautarvörður er kominn við Meistaravelli þar sem slysið varð en Jóhannes gætir öryggis þeirra barna sem fara yfir Hringbrautina við Framnesveg.

Foreldrar hafa lengi óttast um öryggi barna sem þurfa yfir Hringbraut á leið til skóla og lengi kallað eftir úrbótum. Gangbrautarvörður er kominn á gangbrautarljósin við Meistaravelli en Jóhannes segir að betur megi ef duga skal. Fréttablaðið/Anton Brink

„Raunveruleikinn er bara að það er hellingur af börnum sem er að fara yfir Hringbraut þannig að eitthvað verður að gera en mig grunar að ég verði ekki á vaktinni þarna að eilífu þar sem þessi gangbrautarvörður er kominn Meistaravelli,“ segir Jóhannes og bætir við að börnin sem eigi leið þarna um séu ekki það mörg þannig að „það ætti að vera lítið mál að beina þeim öllum á það horn. Sennilega verður það lendingin en við sjáum hvað setur.“

„Það leiðinlega við þetta er að hópur foreldra er búinn berjast í þessu í töluverðan tíma þannig að þeir mega alveg vita upp á sig skömmina þegar það þurfti beinlínis barn að slasast til þess að það væri farið að gera eitthvað,“ segir Jóhannes um þátt ríkis og borgar í málinu.

Sjá einnig: Bregðast við slysi á Hringbraut

Hann bætir við að eina raunverulega framtíðarlausnin felist í aðgerðum til þess að hægja á umferðinni um Hringbrautina. „Eða gera gatnamótin öruggari. Það eru til dæmis þá engin beygjuljós við Framnesveginn sem skapar oft hættu þegar ökumenn taka beygjuna á miklum hraða inn á Hringbrautina.

Maður finnur alveg fyrir því í þessu öllu saman að borgin hefur ekki yfirráð yfir þjóðveginum þannig að  þetta situr fast í einhverju kerfisrugli og hver bendir á annan og enginn tekur ábyrgð,“ segir Jóhannes sem reiknar með að verða mættur á vaktina á mánudagsmorgun. Þá hafa fleiri foreldrar boðist til að taka vaktir þannig að hann segir líklegt að sameinast verði um einhverskonar vaktaplan þar til annað kemur í ljós.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Gísli Marteinn vill þrengja Hringbraut

Samgöngumál

Bregðast við slysi á Hringbraut

Innlent

Gönguverðir við tvenn gatnamót Hringbrautar í morgun

Auglýsing

Nýjast

„Mér fannst ég gríðar­lega mis­heppnuð“

Fimmtíu fastir um borð í logandi farþegaflugvél

Þre­menningum sleppt úr haldi að lokinni skýrslu­töku

Veita frítt í strætó á næsta „gráa degi“

Mætti með „heima­til­búið“ svif­ryk í pontu

Spyr ráðherra um brottvísun barna

Auglýsing