„Allt sem að þarna var sagt á sínar skýringar en engin þeirra snýr að því að verið hafi verið að gera grín að fötlun Freyju,“ segir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins. Honum þykir miður að „fólk úti í bæ“ sé dregið inn í frétta­flutning af upp­tökunum sem náðust af honum og öðrum fimm þing­mönnum Mið­flokksins og Flokks fólksins 20. nóvember síðast­liðinn. 

Í sam­tali þing­mannanna má heyra að Freyja Haralds­dóttir, bar­áttu­kona fyrir réttindum fatlaðra og fyrr­verandi vara­þing­maður, er kölluð „Freyja eyja“ og þá hermir ein­hver eftir því sem virðist vera sela­hljóð þegar nafn Freyju ber á góma. Sig­mundur þver­tekur fyrir að svo sé og segir að um utan­að­komandi um­hverfis­hljóð hafi verið að ræða. 

Umhverfishljóð en ekki hluti af samtalinu

Sig­mundur var í við­tali í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem frétta­maður sagði meðal annars að búið væri að sann­reyna að hljóðið hafi ekki orðið þegar stólar voru dregnir til, líkt og þing­mennirnir höfðu sagt. 

„Ég er ekki að segja að þetta hafi verið stólar dregnir til. En þetta voru ein­hver um­hverfis­hljóð eins og menn taka eftir ef þeir hlýða á sam­talið. Það heldur bara á­fram og enginn fipast til eins og ein­hver hefði gert ef ein­hver hefði leyft sér að gera sela­hljóð eins og haldið var fram,“ sagði Sig­mundur og bætti við að þetta gæti þess vegna hafa verið „reið­hjól að ­bremsa fyrir utan gluggann“ á Klaustur bar. Hljóðið hafi verið talsvert hærra en í samtali þingmannanna.

Eiginkonan rokið á dyr áður vegna talsmáta

Í kvöld­fréttum RÚV sagði Sig­mundur að í gegnum tíðina hefði hann heyrt ó­trú­lega hluti falla, úr öllum áttum þingsins, um mis­munandi þing­menn. Hann minntist þess að eigin­kona hans hafi rokið á dyr í ein­hver skipti þegar þing­menn komu saman og ræddu hver annan. Henni hafi mis­boðið tals­mátinn og þau orð sem látin voru falla um fjarstadda vinnufélaga.

Þá bætti hann við að birting upp­taknanna væri líkt og ein­hver hefði brotist til hans og farið að lesa upp úr dag­bók. Að lokum sagði hann að ýmsir þing­menn hefðu sagt enn­þá ljótari hluti um sig en þeir sem hann sagði í sam­talinu á Klaustur bar. 

„Þetta er bara eitt­hvað sem maður þarf að búa við í þessu starfi,“ sagði Sig­mundur en hann kveðst ekki hafa í­hugað stöðu sína á þingi vegna málsins.