Gat uppgötvaðist á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa Fiskeldis við Vattarnes í Reyðarfirði í gær við reglubundið eftirlit. Matvælastofnun barst tilkynning um málið og hefur nú til rannsóknar hvort eldislaxar hafi sloppið út. Rúv greindi frá.
Gatið fannst á um sjö metra dýpi og reyndist um það bil 50x15 sentimetrar að stærð. Í sjókvínni eru um 145 þúsund laxar. Starfsfólk fiskeldisins lagði út net í takt við viðbragðsáætlun sem verður vitjað á núna um morguninn.
Laxar hjá þessu sama fiskeldi greindust með veiru sem veldur sjúkdómnum blóðþorra í nóvember í fyrra. Það var í fyrsta sinn sem sú veira greindist hér á landi. 68 þúsund fiskar í kvínni voru drepnir en landssamband veiðifélaga kallaði eftir því að öllum laxi í firðinum yrði slátrað.