Gat upp­götvaðist á nótar­poka einnar sjó­kvíar Laxa Fisk­eldis við Vattar­nes í Reyðar­firði í gær við reglu­bundið eftir­lit. Mat­væla­stofnun barst til­kynning um málið og hefur nú til rann­sóknar hvort eldis­laxar hafi sloppið út. Rúv greindi frá.

Gatið fannst á um sjö metra dýpi og reyndist um það bil 50x15 senti­metrar að stærð. Í sjó­kvínni eru um 145 þúsund laxar. Starfs­fólk fisk­eldisins lagði út net í takt við við­bragðs­á­ætlun sem verður vitjað á núna um morguninn.

Laxar hjá þessu sama fisk­eldi greindust með veiru sem veldur sjúk­dómnum blóð­þorra í nóvember í fyrra. Það var í fyrsta sinn sem sú veira greindist hér á landi. 68 þúsund fiskar í kvínni voru drepnir en lands­sam­band veiði­fé­laga kallaði eftir því að öllum laxi í firðinum yrði slátrað.