Tesla Model S Plaid er ekki á barna meðfæri enda er bíllinn 1.020 hestöfl og aðeins 2,1 sekúndu í hundraðið. „Ég var áður með Model 3 Performance sem er tæp 500 hestöfl og 3,3 sekúndur í hundraðið. Munurinn um rúma sekúndu er miklu meiri en maður átti von á,“ segir Guðmundur í viðtali við bílablað Fréttablaðsins. „Hann er líka mjög öflugur á meiri hraða og þó að maður gefi inn á 100 km hraða að þá veður hann bara áfram.“ Sumir hafa reynt að aflæsa hámarkshraða bílsins með kubb sem stungið er í samband við bílinn, og getur hann þá náð 348 km á klst. „Einnig heyrði ég frá starfsmanni Tesla að besti tími sem bíllinn hefði náð væri 1,5 sekúndur í hundraðið en við þau átök brotnar framrúðan. Þess vegna er hann takmarkaður við tvær sekúndur núna.“

Tesla Model S Plaid bíll Guðmundar er sneggsti bíllinn á götunum og þeir sem vilja sjá hann í akstri geta barið hann augum á kvartmílukeppni Bílaklúbbs Akureyrar um helgina.

Guðmundur segir að það hefði verið margt sem þurfti að leysa til að fá Ameríkubíl hingað til lands. „Hleðslan er ekki sú sama, netið í bílnum frá Bandaríkjunum virkar ekki hér og fleiri slíkir hlutir. Tesla umboðið á Íslandi hefur hins vegar virkjað fyrir mig netið þannig að hann er nettengdur núna,“ segir Guðmundur. Bíllinn kemur með Self Driving-útfærslu í Beta-útgáfu sem er sú nýjasta í boði. Hana fær enginn nema eftir að hafa sýnt ábyrgan akstur en hún kom frá fyrri eiganda. „Bíllinn keyrir alveg sjálfur og stoppar ekki bara á ljósum heldur tekur beygjur og allt saman, og við keyrðum nánast alla leiðina í Bandaríkjunum í sjálfkeyrsluham. Ef maður keyrir svo eins og fífl þá missir maður þessa útgáfu og maður fær bara þrjár viðvaranir. Ég er búinn að fá eina svo ég á bara tvær eftir,“ sagði Guðmundur kankvís að lokum.