Gul viðvörun tekur gildi á Suðurlandi, Faxaflóa og á miðhálendinu klukkan sjö í dag. Lokað verður að gos­stöðvum í dag vegna veðurs.

„Á Suðurlandi erum við aðallega að horfa á svæðið undir Eyjafjöllum þar sem gæti orðið mjög hviðótt og svo líka á gossvæðinu,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það verður ansi afleitt veður svo fólk ætti alls ekki að fara á gossvæðið á meðan þessi skil fara yfir.“

Birta Líf segir einhverjar líkur á því að gasefni frá eldgosinu berist til byggða á Reykjanesinu.

„Við hvetjum fólk til að vera vakandi fyrir því og fylgjast með á loftgaedi.is,“ segir hún. „Ef það finnur fyrir einkennum eða er viðkvæmt fyrir er gott að loka gluggum.“