Breski tónlistarmaðurinn og barnaníðingurinn Paul Gadd, betur þekktur sem Gary Glitter, er laus úr fangelsi, átta árum eftir að hann var dæmdur til sextán ára fangelsisvistar fyrir barnaníð.
Glitter, sem er 78 ára, var dæmdur árið 2015 fyrir að brjóta kynferðislega á þremur stúlkum á aldrinum átta til þrettán ára. Brotin framdi hann á áttunda áratug síðustu aldar.
Lögum samkvæmt geta fangar fengið reynslulausn að skilyrðum uppfylltum þegar þeir hafa afplánað helming dómsins. Glitter verður því á skilorði næstu átta árin og fer aftur inn ef hann brýtur aftur af sér. Hann þarf að láta yfirvöld vita sérstaklega ef hann hyggst fara úr landi og ef hann byrjar í sambandi með einstaklingi sem á barn undir 18 ára.
Glitter var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi árið 1999 eftir að í fórum hans fundust þúsundir mynda sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn Þá afplánaði hann fangelsisdóm í Víetnam eftir að hafa verið dæmdur fyrir að níðast á tveimur stúlkum.
Gary Glitter var einn vinsælasti tónlistarmaður Bretlands á áttunda áratug tuttugustu aldar. Kom hann þremur lögum í efsta sæti breska vinsældalistans og seldi hann yfir 20 milljón plötur.