Breski tón­listar­maðurinn og barna­níðingurinn Paul Gadd, betur þekktur sem Gary Glitter, er laus úr fangelsi, átta árum eftir að hann var dæmdur til sex­tán ára fangelsis­vistar fyrir barna­níð.

Glitter, sem er 78 ára, var dæmdur árið 2015 fyrir að brjóta kyn­ferðis­lega á þremur stúlkum á aldrinum átta til þrettán ára. Brotin framdi hann á áttunda ára­tug síðustu aldar.

Lögum sam­kvæmt geta fangar fengið reynslu­lausn að skil­yrðum upp­fylltum þegar þeir hafa af­plánað helming dómsins. Glitter verður því á skil­orði næstu átta árin og fer aftur inn ef hann brýtur aftur af sér. Hann þarf að láta yfir­völd vita sér­stak­lega ef hann hyggst fara úr landi og ef hann byrjar í sam­bandi með ein­stak­lingi sem á barn undir 18 ára.

Glitter var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi árið 1999 eftir að í fórum hans fundust þúsundir mynda sem sýndu börn á kyn­ferðis­legan eða klám­fenginn Þá af­plánaði hann fangelsis­dóm í Víet­nam eftir að hafa verið dæmdur fyrir að níðast á tveimur stúlkum.

Gary Glitter var einn vin­sælasti tón­listar­maður Bret­lands á áttunda ára­tug tuttugustu aldar. Kom hann þremur lögum í efsta sæti breska vin­sælda­listans og seldi hann yfir 20 milljón plötur.