Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, telur nauðsynlegt, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar, að koma því á framfæri að mikil vinna hafi verið lögð í að leysa eineltismál sem upp kom í Garðaskóla á síðasta ári.
Fréttastofa RÚV greindi frá því í lok síðustu viku að Fagráð eineltismála og Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi gert alvarlegar athugasemdir við viðbrögð Garðaskóla við eineltismáli sem kom upp í skólanum.
„Eðli slíkra mála er að á þeim geta verið margar hliðar og sæta stöðugri úrvinnslu starfsmanna og annarra fagaðila þar til að viðunandi lausn fæst,“ segir í fréttatilkynningu frá Garðabæ. Þar kemur fram að starfsmenn grunnskólans og sveitarfélagsins hafi lagt mikla vinnu í að leita leiða til að leysa umrætt mál á öllum stigum þess.
Ráðalausir foreldrar
Stúlkan sem um ræðir er nú í heimakennslu og sögðust foreldrarnir vera ráðþrota vegna skorts á svörum frá skóla og bæjaryfirvalda í samtali við RÚV. Stúlkan hóf nám við Garðaskóla í byrjun ársins 2019. Ekki leið á löngu þar til foreldrar hennar tilkynntu um einelti sem lýsti sér meðal annars í útskúfun og áreiti á samfélagsmiðlum.
Skólinn brást við með því að tala ekki um einelti heldur samskiptavanda, foreldrum til mikillar óánægju. Þá var foreldrunum bannað að hafa beint samband við skólann í gegnum tölvupóst og síma. Síðan þá hafa öll samskipti farið fram í gegnum millilið.
Gagnrýndu viðbrögð skólans
Garðaskóli leitaði til Fagráðs eineltismála í lok ársins 2019 og var þá gerð úttekt á málinu. Í umsögn fagráðsins kom fram að skólayfirvöld þyrftu að rýna eigin viðbrögð og aðgerðir í málinu. Þegar ekki var brugðist við því af hálfu skólans sendi ráðið frá sér annað álit, þar sem skólinn var gagnrýndur fyrir að hafa ekki farið eftir ráðleggingum.
„Í Garðabæ eru slík mál unnin í samræmi við viðeigandi aðgerðaráætlanir, sem sæta sífelldri endurskoðun,“ segir Gunnar. Vinna eftir slíkum áætlunum sé ætlað að tryggja faglega málsmeðferð með það að leiðarljósi að náð sé fram farsælli lausn og tryggingu á hagsmunum þeirra barna sem í hlut eiga.
„Af hálfu Garðabæjar er þó rétt að taka fram að sveitarfélagið telur það ekki hagsmuni þeirra barna sem í hlut eiga, að mál sem þetta sé rekið í fjölmiðlum.“