Hjón sem starf­ræktu barna­heimili á Hjalt­eyri á áttunda ára­tugnum og beittu þar börn grófu of­beldi ráku leik­skóla í Garða­bæ árin 1998 til 2015. Garða­bær hefur nú hafið vinnu við að afla frekari upp­lýsinga um störf þeirra í bænum.

Þetta kemur fram í til­­­kynningu frá Garða­bæ en frétta­stofa Stöðvar 2 greindi fyrst frá málinu á sunnu­dag.

„Um­fjöllun um mál­efni hjóna og frá­sagnir af of­beldi af þeirra hálfu, meðan þau ráku barna­heimili á Hjalt­eyri á áttunda ára­tugnum hefur verið á­berandi í fjöl­miðlum undan­farna daga.

Um­rædd hjón starf­ræktu leik­skóla og voru dag­for­eldrar í Garða­bæ um tíma á árunum 1998-2015.

Í ljósi þess sem fram hefur komið er vinna hafin við að afla nánari upp­lýsinga um störf þeirra sem dag­for­eldra og um leik­skóla­reksturinn sem fram fór í Garða­bæ.

Garða­bær lítur málið afar al­var­legum augum og mun einnig skoða með hvaða hætti má kalla til hlut­lausan utan­að­komandi aðila til að gera út­tekt á þeirri starf­semi sem fram fór innan leik­skóla og í dag­gæslu sem um­rædd hjón störfuðu við.“

Hlutað­eig­andi aðilum, til að mynda for­eldrum eða börnum sem voru í leik­skóla þeirra hjóna eða í dag­gæslu hjá þeim er sam­kvæmt til­kynningunni vel­komið að hafa sam­band við bæjar­skrif­stofur Garða­bæjar í síma 525-8500 eða með því að senda tölvu­póst á net­fangið gardaba­er@gardaba­er.is með fyrir­spurnum, á­bendingum eða óskum um sam­tal eða ráð­gjöf vegna málsins.