Vanja frændi er eitt af meistaraverkum Antons Tsjekhovs og af mörgum talið það allra skemmtilegasta. Leikritið er frumsýnt í kvöld í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur og í nýrri þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar.

Í verkinu segir af prófessor sem kemur á sveitasetur látinnar konu sinnar með seinni eiginkonu sinni. Dóttir prófessorsins af fyrra hjónabandi og Vanja, bróðir fyrri eiginkonu hans hafa lagt mikla vinnu á sig að sinna búinu.

Vanja frændi hefur slitið sér út við rekstur búsins fyrir lítil laun af virðingu við hinn mikla prófessor sem var dýrkaður og dáður. Þegar það kemur í ljós að prófessorinn hefur allt á hornum sér varðandi framlag Vanja er uppgjörið óumflýjanlegt.

„Innsýn Gunnars var okkur mjög dýrmæt. Það er svo merkilegt hvað manneskjan er söm við sig,“ segir Valur Freyr um nýja þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar á Vanja frænda.
Fréttablaðið/Anton Brink

Áhyggjurnar þær sömu

Vanja fer í krísu og örlög hans eru áhorfendum hugstæð. Hann átti sér glæstar vonir en er nú í hlutverki fórnarlambsins. Hann telur hið leiðinlega sveitalíf orsökina en áhorfendur átta sig á því að það er öðru nær. Það er ekki umhverfið og aðstæður hans heldur tryggð hans við velgengni annars manns. Stef sem endurtekur sig í mannkynssögunni og var Tsjékhov hugleikið því hann var af bláfátækum ættum og vanur því að fylgjast með vonum ástvina og kunningja bregðast.
Valur Freyr Einarsson fer með hlutverk Vanja frænda.
„Ég hef oft lesið verkið og í seinni tíð skynja ég betur grátbroslegan farsann. Það eru allir skotnir í sömu stelpunni, allir ósáttir og óánægðir þótt þeir hafi allt til alls. Verkið er hins vegar margslungið því Tsjekhov er svo ótrúlega flinkur í því að fjalla um manneskjuna og glímu hennar við sig sjálfa og umhverfi sitt.

Það er svo margt í verkinu sem kallar á að það sé sett upp í dag. Tsjekhov fjallar um stéttaskiptinguna, sömu myllu og við erum stödd í í dag. Sumir leggja til vinnuna og aðrir njóta ávaxtanna.
Þrátt fyrir að verkið sé skrifað fyrir 120 árum eru áhyggjurnar þær sömu. Maðurinn ber ekki virðingu fyrir jörðinni og sér fram á endalok heimsins, að eftir hundrað ár eigi fólk eftir að hata þessa kynslóð. Nú stöndum við hér í dag og kata­strófan er hin sama þótt hún sé margfalt stærri.

Grátbrosleg sjálfsvorkunn

Vanja frændi sem hefur lagt sig allan fram er kominn með upp í kok af þessum kringumstæðum. Hann er í miðaldrakrísu og finnst allt í einu að lífið sé búið. Hann hafi sóað því í rugl og vitleysu. Það sem hann taldi áður einhvers virði hafi verið tilgangslaust. Hann er fullur gremju og biturðar yfir hlutskipti sínu.
Þetta eru tímamót sem ég held að við lendum öll á á einhverjum tímapunkti. Ég er orðinn fimmtugur og kannast við þá tilfinningu að finnast maður standa efst á fjallinu, nú hefjist gangan niður. Á göngunni niður fjallið þarf maður að vera sáttur við það upp á hvaða fjall maður komst. Og hafa þá tilfinningu að maður hafi ekki sólundað lífi sínu í einhverja vitleysu.
Þessi tímamót geta verið fólki erfið og maður sér alveg fólk splundra hjónaböndum og fara í þann gír að byrja bara upp á nýtt. Er það hægt? Þetta eru sporin sem Vanja er í. Þetta er grátbrosleg saga og við getum speglað okkur í þessari sjálfsvorkunn. Ef við höfum snefil af húmor fyrir okkur sjálfum þá getum við hlegið.“

Vanja fer í krísu og örlög hans eru áhorfendum hugstæð. Hann átti sér glæstar vonir en er nú í hlutverki fórnarlambsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Auðmjúk gagnvart verkinu

Það hlýtur að vera spennandi að setja upp verkið í glænýrri þýðingu?
„Þýðingin er stórkostleg. Gunnar Þorri Pétursson er svona Rússaséní, sonur Péturs Gunnarssonar höfundar og hefur verið að þýða Dostojevskí. Ungur að aldri fær hann þessa löngun til að læra rússnesku og er hafsjór af upplýsingum um tímabilið, landið, menninguna og tónlistina. Mér finnst ég skilja verkið betur. Innsýn Gunnars var okkur mjög dýrmæt. Það er svo merkilegt hvað manneskjan er söm við sig. Að fólk í rússneskri sveit fyrir löngu síðan sé að glíma við sömu langanir og þrár og við í dag. Að þá eins og í dag takist á fólk sem er með ofmat á sjálfu sér og fólk sem er með lítið sjálfstraust. Það segir okkur auðvitað margt um mannseðlið, að við erum skrúfuð saman úr ákveðnum elementum og allir reyna að bjarga sér og sínum.“
Valur Freyr segir leikstjórann og leikhópinn hafa nálgast verkið af auðmýkt.
„Umgjörðin og sviðsetningin er með þeim hætti að við erum á óræðum tíma og óræðum stað en erum á sama tíma trú verkinu. Það eru sterkar vísanir í tímabilið.
Brynhildur lagði upp með að standa á þessum styrku stoðum sem verkið er og ekki að pönkast í því. Við æfðum það eftir handritinu þótt við hefðum ekki elst við allar fyrirskipanir í því þá vorum við mjög trú þessu öllu saman. Svo þegar við vorum komin með djúpan skilning á verkinu þá fórum við að brjóta það svolítið upp.“

Enginn afsláttur

Valur Freyr ber lof á leikstjórann, hana Brynhildi Guðjónsdóttur. „Brynhildur er bæði vel lesin og klár. Og veit hvert hana langar til að fara með hlutina en samt opin. Hún er með sýn en lætur okkur ekki fylla út í draum sem hún er með í höfðinu. Markmiðið er að draga verkið fram og gera frábæra sýningu sem talar til okkar. Hún hefur góðan skilning á starfi leikarans. Af því að hún er góð leikkona og hefur borið uppi margar sýningar. Hún þekkir vel ferlið og er glögg í að sjá hvenær leikari er að stytta sér leið og gefur engan afslátt,“ segir Valur og brosir út í annað.