Í dag, laugardag, fer fram hin árlega Garnganga en um er að ræða hátíð handverksfólks sem ferðast á milli sérverslana með garn og aðrar hannyrðir.

Gangan er að erlendri fyrirmynd og þekkist víða erlendis sem Yarn Crawl sem er vísun í Pub Crawl. Hún hefur slegið rækilega í gegn hérlendis, sem ætti ekki að koma á óvart, því að bara á höfuðborgarsvæðinu eru fleiri garnverslanir á íbúa en bæði í London og New York til samans.

Rannveig Tenchi er einn forsprakka göngunnar, sem var fyrst farin haustið 2017.

„Það eru níu verslanir sem taka þátt í ár og þar sem þær eru á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið notar fólk annaðhvort strætó eða bíl til að komast á milli.“ Það er ólíkt því sem gerist erlendis enda svæðið hér dreifðara. „Fólk er oft að hópa sig saman í bílum og ekki síst þau sem koma utan af landi.“

Drottningin húfa ársins

Árlega er haldin samkeppni um húfu ársins og þá keppast prjónarar og heklarar við að senda inn uppskriftir og er ein valin Garngönguhúfan. „Við ákváðum þó að efna ekki til samkeppni í ár því húfan sem bar sigur úr býtum árið 2020 hefur enn ekki fengið sína göngu,“ segir Rannveig, en gangan hefur legið niðri undanfarin ár eins og aðrar samkomur vegna Covid.

„Hvern sem langar að hanna uppskrift að prjónaðri eða heklaðri húfu getur sent inn og eru verðlaun í boði. Öll eru svo hvött til að gera húfuna og bera hana í göngunni. Verslanir leggja svo til alls konar litasamsetningar og auglýsa hana þannig líka. Húfan sem vann 2020, og er því garngönguhúfan árið 2022, heitir Drottningin og er uppskrift að henni frí inni á bæði Ravelry.com og garngangan.is,“ segir hún og bætir við að Ravelry sé gagnabanki handverksfólks.

Þau sem taka þátt í göngunni fá afhent stimpilkort í fyrstu versluninni sem er heimsótt og þau sem ná að safna stimplum frá öllum verslununum geta svo skilið stimpilkortið eftir í síðustu versluninni og eru þá komin í happdrættispott, en vinningur að verðmæti 70.000 krónur er í verðlaun. Eins eru verslanir með sína eigin minni vinninga.

„Svo veljum við garngöngulit sem er á stimpilkortinu og er hann fjólublár í ár. Hugmyndin á bak við gönguna er að lyfta sérverslunum upp og beina handverksfólki til þeirra.“

Yngra fólk farið að prjóna

Fyrirkomulagið er þannig að handverksfólk mætir í þá verslun sem það vill byrja á og fær þar afhent stimpilkort og heldur áfram sem leið liggur. „Verslanirnar eru svo með pop-up viðburði og tilboð fyrir gesti. Gangan er alltaf fyrsta laugardag í september en verslanirnar eru flestar með lokað á laugardögum á sumrin en eru að opna aftur þann 1. september. Það er því bara um að gera að setja veturinn í gang.“

Rannveig segir mætinguna alltaf hafa verið góða og þær búist ekki við neinu minna í ár. „Þó við séum ekki með nákvæma tölu þá eru þetta í kringum 700 manns sem hafa verið að mæta.“

Rannveig segir handverksáhugann okkur í blóð borinn. „Við heklum og prjónum af lífi og sál. Næstelsti minn var 10 ára þegar hann prjónaði sér lopapeysu og nú er ég með einn níu ára sem er að suða um að fá að læra. Ég tók eftir mikilli aukningu árið eftir hrun, 2008, og verslanirnar segja það sama, að yngra fólk sé að koma til þeirra og öll kyn,“ segir hún og bætir við að umræður á samfélagsmiðlasíðum prjónara séu oft heitar.

Rannveig segir aðspurð sífellt algengara að uppskriftir séu keyptar á netinu. „Ég kaupi eiginlega aldrei uppskriftir á prenti þó það sé veglegt og fallegt úrval af slíku í sérverslunum en eins er mikið til á netinu þar sem þú kaupir uppskriftina og færð hana senda um leið í tölvupósti,“ segir Rannveig að lokum en sjálf deilir hún sínu handverki undir myllumerkinu #prjónandipírati.

Garngangan er frá 11 til 17 í dag, laugardag, og nánari upplýsingar má finna á garngangan.is og á Facebook-síðu viðburðarins.