Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, segir að ekki væri þörf fyrir 40 fermetra gám, hefðu íslensk stjórnvöld staðið sig í stykkinu síðastliðin ár og byggt alvöru sóttvarnarmóttöku á Landspítalanum. Elín skrifar um „frægasta skúr Íslandssögunnar“ í færslu sem hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Umræddur skúr er fyrir einstaklinga sem greinast með COVID-19 kórónaveirusjúkdóminn, en hann er ekki ætlaður fyrir langtíma sóttkví að sögn Elínar.

Netverjar hafa gert óspart grín að gámnum og hefur Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagt hann vera hjá­kát­legan.

Aðstöðunni var komið upp til þess að þeir sem eru grunaðir um að bera smit af kór­ónu­veirunni COVID-19 smiti ekki aðra sjúk­ling­a á spít­al­an­um.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Elín segir tilgang skúrsins vera að koma í veg fyrir að sýktur einstaklingur smiti sjúklinga á biðstofu bráðamóttökunnar.

„Hann er notaður til þess að mögulega covid-19 sýktur einstaklingur sé ekki látinn ganga í gegnum stútfulla bráðamóttöku hóstandi yfir allt og alla. Viðkomandi er fylgt beint úr móttökunni í skúrinn, tekið veirustrok, fengin niðurstaða úr veirustrokinu á oftast innan við tveimur tímum og svo bara heim í netflix eða á smitsjúkdómadeildina.“

Elín beinir því næst orðum sínum til þeirra sem hafa gert grín að þessu fyrirkomulagi.

„Er það ekki fyndið að hefðu íslensk stjórnvöld og útrásarvíkingar staðið sig í stykkinu undanfarna áratugi væri þessi skúr bara alger óþarfi. Þá ættum við kannski alvöru sóttvarnarmóttöku á nýlegum spítala sem væri búinn öllum græjum til að taka á móti fólkinu okkar þegar faraldur gengur yfir. Já fyndið... mjög fyndið allt saman. Þetta er skúr úti á plani en á meðan stefnum við engum öðrum í hættu...so get over it!“

Af gefnu tilefni: Frægasti skúr Íslandssögunnar er ekki ætlaður fyrir langtíma sóttkví. Hann er notaður til þess að...

Posted by Elín Tryggvadóttir on Friday, February 28, 2020