Vol­ó­dómír Zelenskíj, gaman­leikarinn sem heillað hefur Úkraínu­menn að undan­förnu þrátt fyrir enga reynslu í stjórn­málum aðra en í gervi upp­skáldaðrar sjónvarpsper­sónu, er talinn munu bera sigur úr býtum þegar lands­menn ganga að kjör­borðunum í dag.

Kannanir gefa til kynna að hann muni aftur hafa betur en sitjandi for­seti landsins, Petró Por­ó­sjen­kó, í annarri um­ferð for­seta­kosninganna. Zelenskíj var lang­efstur í fyrri um­ferð, fékk yfir 30 prósent greiddra at­kvæða á meðan Por­ó­sjen­kó hlaut einungis tæp 16 prósent í öðru sæti.

Zelenskíj hefur mælst með allt að 70 prósent fylgi í að­draganda síðari hluta kosninganna en Por­ó­sjen­kó vart náð yfir 30 prósent í könnunum.

Valdatíð Petró Porósjenkós, sitjandi forseta, gæti senn verið á enda.
Fréttablaðið/Getty

Zelenskíj er af mörgum talinn ferskur and­blær í pólitíkina í Úkraínu. Hann hefur ekki veigrað sér við að skjóta á and­stæðing sinn, sitjandi for­seta, sem meðal annars hefur verið sakaður um spillingu í starfi.

Gaman­leikarinn hefur í fram­boði sínu einkum notast við sam­fé­lags­miðla til að vekja at­hygli á mál­stað sínum og lítið komið fram opin­ber­lega. Hann og Por­ó­sjen­kó áttust hins vegar við í kapp­ræðum á Ólympíu­vellinum í Kænu­garði á föstu­dag og þótti hann standa sig vel þar.

Kosningar hófust klukkan átta að staðar­tíma í morgun, fjögur í nótt að ís­lenskum tíma, og verður kjör­stöðum lokað tólf tímum síðar.