Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, við Hakið á Þingvöllum í gær þaðan sem þær gengu að sumarbústað forsætisráðherra og héldu stutt ávörp áður en þær áttu fund saman.

Forsætisráðherra sagði það heiður að fá kanslarann í heimsókn. Hún hafi boðið Merkel til Íslands þegar leiðtogarnir hittust í Berlín í fyrra. Merkel sagðist ánægð með að vera komin og að það hefði lengi verið draumur að sækja Ísland heim.

Loftslagsmál, pólitískt landslag Evrópu og jafnréttismálin voru ofarlega á baugi á leiðtogafundinum, ef marka má ávörp Katrínar og Merkel. Sagði Katrín að Merkel hefði verið einn helsti talsmaður frjálslynds lýðræðis undanfarin misseri á sama tíma og popúlískar hreyfingar hefðu verið að ryðja sér til rúms. Sagði Merkel að samskiptin við Norðurlönd skiptu miklu máli. Hún ætlaði að ræða stöðu Evrópusambandsins og stöðuna gagnvart Bandaríkjunum og minntist á að fundarstaðurinn hentaði því vel í ljósi þess að þær hittust við skil Evrópu- og Norður-Ameríkuflekanna.

Kanslarinn þýski sagði ríkisstjórn Íslands hafa sett sér metnaðarfull áform í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og það gerði forsætisráðherra sömuleiðis. Þá sagði Merkel að Þjóðverjar gætu lært ýmislegt af Íslendingum í jafnréttismálum, þeir þyrftu að spýta í lófana, og Katrín sagði kynjajafnrétti lykilatriði þegar kemur að framförum á öðrum sviðum.

Merkel kom til landsins í gær en hún er sérstakur gestur sumarfundar forsætisráðherra Norðurlanda sem fer fram í Hörpu í dag. Auk þess að taka á móti Merkel í gær hitti Katrín einnig Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og fór með honum í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun. Að þeirri heimsókn lokinni átti hún fund með Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, í Ráðherrabústaðnum.

Að fundi Norðurlandaleiðtoganna auk leiðtoga Álandseyja og Grænlands loknum verður undirrituð sameiginleg yfirlýsing um sjálfbærni og jafnrétti. Þá hefur verið boðað til blaðamannafundar forsætisráðherranna og þýska kanslarans í Viðey eftir hádegi í dag.