„Fólk hikar ekki við að út­hrópa stjórn­mála­menn – enda hika stjórn­mála­menn ekki við að út­hrópa hver annan – stíga jafn­vel inn fyrir veggi heimilis þeirra og hringja öllum tímum sólar­hrings til að segja þeim hve vondar mann­eskjur þeir eru.“

Þetta segir Kol­beinn Óttars­son Proppé, þing­maður Vinstri grænna, í pistli sem birtist á Vísi í morgun.

Þar gerir Kol­beinn frum­varp Pírata um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta fíkni­efna að um­tals­efni. Eins og kunnugt var frum­varpið fellt í at­kvæða­greiðslu á Al­þingi í fyrri­nótt. Kol­beinn var einn þeirra þing­manna sem greiddu at­kvæði gegn frum­varpinu og gerir hann grein fyrir þeirri af­stöðu sinni í pistlinum. Þá segist hann hafa á­hyggjur af þeirri pólaríseringu sem ein­kennir ís­lensk stjórn­mál. Þing­menn beri þar mikla á­byrgð með tali sínu um of­beldi og níðings­verk, vald­níðslu og ein­elti.

Kol­beinn bendir á að ríkis­stjórnin hafi unnið að stefnu sinni um af­glæpa­væðingu, það er að horfa á fíkni­efna­sjúk­linga sem veikt fólk en ekki glæpa­menn. Það sé í sam­ræmi við stjórnar­sátt­málann. Stórt skref hafi verið stigið fyrr á árinu þegar frum­varp um neyslu­rými var sam­þykkt.

„Næsta skref í ferlinu er að vinna að af­glæpa­væðingu neyslu­skammta. Heil­brigðis­ráð­herra mun leggja fram slíkt mál á næsta þingi. Málið verður unnið í samráði við lykil­aðila í heil­brigðis­kerfinu og fleiri sem að slíkum málum þurfa að koma; dóms­mála­ráðu­neytið, lög­reglan og ríkis­sak­sóknari,“ segir Kol­beinn sem segir að það hafi komið honum á ó­vart þegar sú stemning myndaðist að rétt væri að sam­þykkja frum­varp Pírata um af­glæpa­væðingu.

„Það er góðra gjalda vert, en ekki unnið í því sam­ráði sem kallað hefur verið eftir í þessum málum, ekki farið í sam­ráðs­gátt frekar en önnur þing­manna­mál. Sam­kvæmt upp­lýsingum á vef þingsins, sem öllum standa opnar, hefur verið fjallað efnis­lega um málið á þremur fundum vel­ferðar­nefndar, þar af komu gestir á tvo fundi. Um­sagnir eru ellefu og í ýmsum þeirra koma fram spurningar og at­huga­semdir sem ég tel nauð­syn­legt að taka á ef stunda á vandaða laga­setningu – nokkuð sem oft er kallað eftir. Til dæmis skil­greindi frum­varpið ekki hvað neyslu­skammtur væri,“ segir Kol­beinn.

Kol­beinn segir að Píratar hafi gert af­greiðslu á frum­varpinu að skil­yrði fyrir því að þeir sam­þykktu þing­lok.

„Það sér­kenni­lega hér var þó að Píratar heimtuðu að þing­menn annarra flokka af­söluðu sér rétti sínum til að greiða at­kvæði í þing­sal eftir sam­visku sinni. Þannig vorum við ansi mörg sem töldum frum­varpið ekki tækt til af­greiðslu en studdum hug­myndina að baki því. Þess vegna vildum við vísa málinu til ríkis­stjórnar og þar með inn í þá vinnu sem í gangi er um frum­varp sama efnis í heil­brigðis­ráðu­neytinu. Það máttu Píratar ekki heyra á minnst, sam­þykkja þyrfti málið eða fella, og víluðu ekki fyrir sér að kæfa þannig þing­viljann með mál­þófi. Þetta er sem sagt allt saman gamal­dags, pólitískt leik­rit með sínum klækja­brögðum,“ segir Kol­beinn sem er þeirrar skoðunar að löngunin í fyrir­sagnir hafi orið lönguninni til að vinna skyn­sam­lega að málum yfir­sterkari.

Kol­beinn segir að vinnan við af­glæpa­væðingu neyslu­skammta haldi á­fram, heil­brigðis­ráð­herra hafi sýnt vilja sinn í verki með lögum um neyslu­rými. „Vonandi vekur sam­þykkt þess mikil við­brögð hjá þeim sem hafa verið stór­yrtust síðustu daga, en fyrst og fremst verður það vonandi enn eitt skrefið í að bæta stöðu þess fólks sem það mun fjalla um.“