Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, brást í síðustu viku harkalega við tillögu borgarstjóra um vettvang þar sem starfsfólk Reykjavíkurborgar geti komið á framfæri ábendingum eða kvörtunum vegna framgöngu kjörinna fulltrúa í þeirra garð. Borgarstjóri og formaður borgarráðs myndu þá í kjölfarið boða viðkomandi borgarfulltrúa á fund þar sem farið væri yfir kvartanirnar.

Afgreiðslu tillögunnar var frestað á fundi borgarráðs í síðustu viku en Vigdís sá fullt tilefni til þess að fordæma hana strax sem hún gerði meðal annars á Facebook þar sem hún talaði „um geggjaða hugmynd“ og sagði síðar að  „pólitísk réttarhöld“ væri að ræða, algera tímaskekkju árið 2019.

Vigdís fór mikinn í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún sagði aðspurð að með tillögunni væri Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að reyna að múlbinda hana og aðra borgarfulltrúa.

„Þetta er náttúrlega algjör firring að borgarstjóri og formaður borgarráðs geti kallað til sín kjörna fulltrúa og lesið yfir þeim, því að þau eru ekki yfirmenn kjörinna fulltrúa, það eru kjósendur Í Reykjavík í þessu tilfelli,“ svaraði Vigdís þegar Gunnlaugur Helgason spurði hana hvort þetta gæti staðist og hvort hún væri ekki að rugla.

„Rosalega mikið rugl“

Þá sagði Vigdís þetta fáheyrt og svo „rosalega mikið rugl“ að hún vissi bara ekki hvaða þetta væri komið. Hún ítrekaði spurningu sína af Facebook um hvort borgarstjóri og formaður borgarráðs ætluðu þá að sitja í sínum eigin rannsóknarrétti.

„Hver á að rannsaka það, sem dæmi, ætlar Dagur þá enn og aftur að rannsaka sjálfan sig, eins og hann rannsakaði sitt eigið úthólf í póstinum og sagði að það væri ekki búið að eyða neinum póstum? Ég spyr,“ sagði Vigdís með vísan til þrálátra deilna um horfna tölvupósta í tengslum við braggamálið.

Vigdís sagðist aðspurð telja að um tilraun til þess að múlbinda hana og fleiri borgarfulltrúa sem hafi gengið hart fram í gagnrýni á störf meirihlutans. „Hann er pólitískur andstæðingur til dæmis minn og þeirra sem sitja í minnihlutanum,“ sagði Vigdís um Dag og að hann gæti því „aldrei verið í einhverjum dómi og fellt dóm yfir því ef eitthvað bjátar á.“

Þá hafnaði Vigdís því alfarið að þau í minnihlutanum væru vond og réðust á starfsfólk borgarinnar og talaði um órökstuddar dylgjur í því sambandi og þetta væri eitthvað sem þau ætluðu ekki að sitja undir, í það minnsta ekki hún og Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi hennar.