Í dag var kynnt nýtt markaðs­á­tak UNICEF á Ís­landi þar sem á­horf­endum býðst tæki­færi að stjórna á­kvörðunum þeirra Anítu Briem og Snorra Engil­berts­sonar sem leika aðal­hlut­verk í aug­lýsingu fyrir á­takið. Í til­kynningu frá UNICEF segir að um sé að ræða upp­lifun sem á sér enga líka á heims­vísu.

Á­takið heitir Veldu núna og skartar leikurunum Anítu Briem og Snorra Engil­berts­syni í aðal­hlut­verkum. Einnig má sjá Krist­björgu Kjeld, Odd Júlíus­son og leikarana í Kardi­mommu­bænum bregða fyrir á­samt fleiri þekktum and­litum. Í upp­lifuninni þurfa þau Aníta og Snorri að­stoð á­horf­andans til að komast burt frá ill­mennum sem að elta þau. Á­horf­andinn velur flótta­leið með radd­stýringu eða með því að ýta á hnapp.

Hvað ná­kvæm­lega gerist í sögunni og hvað sögu­per­sónur gera næst er því undir hverjum og einum komið.

Út­færslan er al­gjör­lega ein­stök og á sér ekki hlið­stæðu hér­lendis svo ó­hætt er að segja að hér sé verið að brjóta blað í staf­rænni markaðs­setningu og tækni­þróun. Hægt er að spila eltingar­leikinn á ís­lensku, ensku og pólsku.

„Á hverjum degi tökum við ótal á­kvarðanir. Margar þeirra hafa engin á­hrif á líf okkar eða annarra, eins og þær á­kvarðanir sem á­horf­andinn tekur í að stjórna eltinga­leiknum. Síðasta á­kvörðunin í leiknum hefur þó raun­veru­leg á­hrif, í raun­heimum, en það er sú á­kvörðun að gerast Heims­for­eldri og hjálpa UNICEF, Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna, að berjast fyrir réttindum og vel­ferð barna um allan heim,“ segir í til­kynningu frá UNICEF um á­takið.

Áhorfendur fá tvo valkosti.
Skjáskot/UNICEF

Heimsforeldrar 26 þúsund

Á Ís­landi eru yfir 26 þúsund Heims­for­eldrar sem styðja UNICEF í hverjum mánuði með frjálsum fram­lögum og gera UNICEF þannig kleift að vera til staðar fyrir börn í mjög ó­líkum að­stæðum, bregðast hratt og örugg­lega við á svæðum þar sem neyð brýst út og berjast fyrir réttindum barna þar sem þörfin er mest hverju sinni.

Með á­takinu Veldu núna vill UNICEF bjóða fleiri lands­mönnum að velja að ganga í hóp þessa hug­sjóna­fólks og vekja um leið at­hygli á því hvernig Heims­for­eldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn allan ársins hring.

Verk­efnið er unnið fyrir UNICEF á Ís­landi og að því standa fram­leiðslu­fyrir­tækið Tjarnar­gatan, aug­lýsinga- og al­manna­tengsla­stofan Ampere og vef­stofan Jökul­á auk þess sem for­ritun var í höndum Hreins Beck. Tón­smíðar voru í höndum Kjartans Hólm. Þeir Ævar Þór Bene­dikts­son, sendi­herra UNICEF á Ís­landi, og Arnór Pálmi Arnars­son unnu hand­ritið og leik­stjórn var einnig í höndum Arnórs Pálma. Allir sem komu að verk­efninu gáfu rausnar­legan af­slátt af sinni vinnu.

Hjálpaðu Anítu og Snorra að flýja undan illmennunum hér.

Hægt er að skrá sig sem Heimsforeldri UNICEF hér.