Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segist vera ósáttur við að til greina komi að landlæknir rannsaki hópsmitið sem kom upp á Landakoti sem alvarlegt atvik.

Þetta segir hann í samtali við Morgunblaðið og vísar þar til ummæla Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns landlæknis. Rúmlega áttatíu kórónaveirutilfelli eru rakin til smitsins sem upp kom á Landakotsspítala.

Gangi gegn samstöðunni

„Ég er mjög óánægður með fregn sem borist hefur frá landlækni um að þetta sé atvik sem þurfi að rannsaka. Það gengur alveg gegn því sem sagt hefur verið um samstöðu í baráttunni við þennan faraldur. Á farsóttartímum er mikilvægast að rekja smit – rakning er ígildi rannsóknar og rakning er tólið sem við höfum til að finna út hvað er á seyði,“ sagði Már í samtali við Morgunblaðið.

Þá sagði hann einnig að ekki væri útlit fyrir að um neitt glæpsamlegt hafi verið að ræða eða þá að nokkur misbrestur hafi orðið í starfsemi Landakotsspítala.

Már sagði sjálfsagt að skoða upptök hópsmitsins svo koma megi í veg fyrir að slíkt gerist aftur en það væri þó ekkert tilefni til þess að tilkynna atvikið sérstaklega, hvað þá að það leiði á endanum til kæru eða einhvers slíks. Fólk eigi ekki að áfellast hvert annað í þessum aðstæðum.

Hjúkrunarfræðingur segir umfjöllunina draga úr trausti

Hjúkrunarfræðingurinn Elín Tryggvadóttir sem starfar á Landspítalanum tekur í svipaðan streng og gagnrýnir fjölmiðla fyrir að sækja hart að stjórnendum Landspítalans í málinu.

„Október er greinilega kjörtími fyrir grillveislur í fjölmiðlum. Steikin í dag var forstjóri Landspítala og starfsfólk Landakots. Það var ekki nóg að steikja forstjóra á upplýsingafundinum í dag heldur var kolagrillaði í Kastljósi. Reynt að finna sökudólga og pressa viðmælanda til að benda á einhvern einn,“ skrifar Elín í færslu á Facebook-síðu sinni sem hefur náð mikilli dreifingu.

Óskar eftir vinnufriði

Hún segir að það sé í eðli heilbrigðisstarfsemi að erfitt sé að komast hjá alfarið snertingu og nálægð milli starfsmanna og sjúklinga.

„Við mætum dag eftir dag, klæðumst grímum og hlífðarbúningum og pössum okkur eins og við getum en það þarf ekki nema eina ósýnilega agnarsmáa kórónuveiru agnarögn til að hið óhugsandi gerist, að við berum veiruna í skjólstæðing.“

Þá segist hún vonast til þess að Landspítali og starfsfólk Landakots fái vinnufrið til að kljást á við það stóra verkefni sem liggi fyrir höndum og „að fjölmiðlar fari að pakka niður grillinu.“