Ester Ingvars­dóttir, barna­sál­fræðingur, segist hugsi eftir út­skrift dóttur sinnar úr 10. bekk en þar var meiri­hluta nem­enda veitt verð­laun fyrir ein­hvers konar fram­úr­skarandi árangur og ör­fáir sátu eftir með engin verð­laun, þar á meðal dóttir hennar.

Ester telur að það geti valdið meiri skaða en ekki en að veita nærri öllum verð­laun og að al­mennt þurfti skóla­sam­fé­lagið að taka til skoðunar hvernig er verið að um­buna fyrir góðan árangur og hverjum.

„Það stakk mig sér­stak­lega þegar þið - stjórn­endur - hömruðuð á því að þetta væri svo frá­bær hópur að það væru næstum allir komnir upp á svið, bara ör­fáir eftir í salnum,“ segir Ester í bréfi sem hún sendi skólanum eftir út­skriftina.

Það skal tekið fram að fréttin er skrifuð í sam­ráði við og með leyfi dóttur Esterar, en henni líkaði þetta illa og vildi eins og móðir hennar, að vakin yrði at­hygli á þessu.

„Hún sagði: „Mamma, ég vil að þú talir um þetta.“ Henni fannst þetta ekki við­kvæmt heldur vildi bara að það yrði fjallað um þetta,“ segir Ester.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Ester þetta orða­lag skólans hafa verið „mjög ó­heppi­legt“. Hún segir að sem betur fer hafi skólinn tekið bréfi hennar vel og að þau eigi nú í sam­tali um fram­haldið en telur þó bréf sitt og um­ræðuna eiga erindi við skóla­sam­fé­lagið al­mennt.

Það stakk mig sér­stak­lega þegar þið - stjórn­endur - hömruðuð á því að þetta væri svo frá­bær hópur að það væru næstum allir komnir upp á svið, bara ör­fáir eftir í salnum

Hópurinn sem sat eftir einangraður

Í bréfinu sagði Ester frá því að hún hafi farið í þó­nokkrar út­skriftir en þessi hafi verið öðru­vísi. Það hafi í gegnum tíðina tíðkast að veita verð­laun fyrir fram­úr­skarandi árangur og það hafi þá verið ör­fáir ein­staklingar.

„Við verð­launa­af­hendingu ykkar í gær var þetta allt annars eðlis. Allir sem fengu A í ein­hverju fengu verð­laun, margir ein­staklingar, allt að 5,6,7 manns fengu verð­laun fyrir sama fagið, allir sem voru góðir í ein­hverju. Krakkarnir hrúguðust upp á svið og hópurinn stækkaði og stækkaði. Eftir því sem hópurinn stækkaði, varð mér meira hugsað til þeirra sem eftir sátu. Minni­hlutann, „skjól­stæðingana mína“ - börn með náms­vanda, ein­beitinga­vanda, kvíða, þung­lyndi, á­föll, náms­leiða, flóknar heimilis­að­stæður. Börn sem eiga kannski ekki for­eldra sem leið­rétta orða­lag og staf­setningar­villur til að fá gull­tryggt A á verk­efnum,“ segir Ester í bréfinu.

Hún segir að með því að skilja þessi „ör­fáu“ eftir í salnum hafi þetta ekki verið verð­launa­af­hending heldur verið að „ein­angra hópinn sem, sam­kvæmt skóla­náms­mati, er ekki góður í neinu.“

„Þetta er særandi og niður­lægjandi, og ég vona að þið sjáið muninn á því að vera einn af hópnum þegar einum er um­bunað - eða að vera sá sem situr eftir þegar meiri­hlutinn er verð­launaður,“ segir Ester og leggur til að skólarnir annað hvort veiti færri verð­laun eða kalli hvern og einn upp á svið og veiti þeim viður­kenningu fyrir eitt­hvað sem þau eru góð í.

„Nú veit ég ekki hvort þetta tíðkast í fleiri skólum og er eitt­hvert af­kvæmi A,B,C kerfisins, en vona inni­lega að ég þurfi ekki að vera við­stödd aðra út­skrift með þessu sniði,“ segir Ester að lokum í bréfinu.

Þetta er særandi og niður­lægjandi, og ég vona að þið sjáið muninn á því að vera einn af hópnum þegar einum er um­bunað - eða að vera sá sem situr eftir þegar meiri­hlutinn er verð­launaður

Atvik sem getur setið í fólki

Fjöl­margir hafa deilt bréfinu hennar og lýst yfir undrun á þessu. Ester segist sjá það og vonast til þess að góð um­ræða skapist um málið. Hún líkir málinu við það ef að full­orðinn manneskja færi á starfs­manna­fund og öllum, nema nokkrum, væri um­bunað fyrir góð störf eða frammi­stöðu.

„Ef það væri einn kallaður upp gætirðu klappað fyrir við­komandi og sam­glaðst honum en ef það væri meiri­hluti hópsins kallaður upp og þú einn af þeim sem situr eftir geturðu kannski í­myndað þér hvernig þessum krökkum leið,“ segir Ester sem segir að það hafi veru­lega slæm á­hrif á fólk að upp­lifa sig sem „rest“ af hópi.

Hún segir að oft sé um að ræða ein­stak­linga sem skari fram úr á sviðum sem ekki er verið að mæla á ein­kunna­blaði og það verði að taka til greina að svona at­vik geta setið í fólki til lengri tíma.

„Maður fær stundum til sín eldri ein­stak­linga sem eiga svona at­vik úr skóla sem sitja í þeim og margir sem hafa verið í þeirri stöðu að ganga ekki vel í grunn­skóla átta sig ekki á því fyrr en löngu seinna, þegar þau eru komin í eitt­hvað sem þeim finnst á­huga­vert í há­skóla, að þau geri lært og þeim séu ekki allar bjargir bannaðar,“ segir Ester að lokum.

Hér að neðan má sjá færslu með bréfinu hennar Esterar, en Ester deildi því ekki sjálf opinberlega til að byrja með en Kristbjörg gerði það nafnlaust með hennar leyfi.