Miðstjórn ASÍ kallar eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að bregðast hratt við vaxandi verðbólgu og óásættanlegri stöðu á húsnæðismarkaði og hvetur fyrirtæki til að sýna samfélagslega ábyrgð við verðlagningu. Stjórnvöld geti ekki látið almenning taka höggið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðstjórn ASÍ.
Þar kemur fram að kjararýrnun sem almenningur er að verða fyrir vegna verðbólgu og hækkandi vöru- og húsnæðisverði þessa dagana muni hafa veruleg áhrif á kjaraviðræður næsta haust.
Þá hafi verðbólgan ekki verið hærri frá hruni og helsti drifkraftur hennar sé hækkun á húsnæðisverði, sem muni hafa verulega íþyngjandi áhrif, sérstaklega á þau heimili sem nýlega hafa keypt fasteign.
Frekari hækkun geti orðið til þess að setja frekari þrýsting á hækkun verðlags með hærri vaxtakostnaði fyrirtækja.
Miðstjórn ASÍ telur stjórnvöld hafi hundsað viðvörunarorð um verðhækkanir og brugðist of seint við stöðunni sem nú er uppi á húsnæðismarkaði. Það sé með öllu óásættanlegt að almenningur og launafólk í landinu greiði alfarið fyrir hagstjórnarmistök á húsnæðismarkaði og innflutta verðbólgu.