„Ég ætla ekki einu sinni að reyna að skilja það innræti sem liggur svona aðgerðum og framkomu í garð samstarfsmanna til grundvallar. Það er mér einfaldlega óskiljanlegt,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ) í grein sem hann birti í dag þar sem hann fer yfir meint verkfallsbrot Morgunblaðsins í gær. Hann segir að stjórnendur og eigendur fyrirtækisins séu starfi sínu engan veginn vaxnir og spyr hvort eigendur þeirra miðla sem virtu vinnustöðvunina geti hugsað sér að halda samstarfi sínu við Árvakur áfram.

Eins og greint var frá í gær voru RÚV og mbl.is grunuð um verkfallsbrot á verkfalli blaðamanna, ljósmyndara og myndatökumanna hjá Fréttablaðinu, miðlum Sýnar, Morgunblaðsins og RÚV, sem fram fór í gær. Vinnustöðvunin átti sér stað á milli klukkan 10 og 14 en hún var sú fyrsta af fjórum fyrirhuguðum vinnustöðvunum félagsmanna BÍ.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sást tökumaður RÚV á skrifstofu Sýnar á meðan verkfallinu stóð og þá birtust ýmsar fréttir á mbl.is á milli klukkan 10 og 14. Í yfirlýsingu frá blaðamönnum mbl.is í gær var greint frá því hvernig blaðamenn Morgunblaðsins, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, tóku til við að skrifa fréttir inn á vefinn á meðan vefblaðamenn voru í verkfalli.

Vildi fara yfir hugsanleg ágreiningsefni fyrir verkfall

„Ég er sérstaklega hugsi yfir þeirri fyrirlitningu gagnvart aðgerðum undirmanna þeirra, sem byggja á þeim sjálfsögðu mannréttindum að geta farið í verkfall, sem skín í gegnum þær aðgerðir sem stjórnendur Árvakurs beittu sé fyrir til þess að brjóta niður löglega boðaða vinnustöðvun, og hversu óskiljanlegt það er að tefla samstarfsfólki gegn hvert öðru með þeim hætti sem gert var,“ segir Hjálmar í grein sinni. Hann segist trúa RÚV, sem stóð í trú um að tökumaðurinn, sem var verktaki, hafi mátt starfa á meðan verkfallinu stóð. Brot Morgunblaðsins séu þó skýr.

Hjálmar segist þá hafa skrifað stjórnendum Árvakurs í að minnsta kosti þrígang í aðdraganda verkfallsins og óskað eftir því að farið væri yfir hugsanleg ágreiningsefni um framkvæmd þess. Engin svör hafi borist frá Árvakri og RÚV. „Hjá Fréttablaðinu og Sýn var framkvæmdin til fyrirmyndar. Það hefur hins vegar augljóslega verið erfitt að horfa upp á mbl.is í loftinu vegna verkfallsbrota á sama tíma og visir.is og frettabladid.is voru það ekki.“

„Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort eigendur þessara ágætu fyrirtækja, sem virtu boðaða vinnustöðvun starfsmanna sinna, og Ríkisútvarpsins, sem er í eigu almennings, geti hugsað sér að vera í kompaníi með verkfallsbrjótum. Ef þessi fyrirtæki ætla að halda samstarfi sínu við Árvakur áfram, þurfa þau þá ekki að samræma afstöðu sína til framkvæmdar vinnustöðvana?!“ spyr Hjálmar að lokum.