António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur gagn­rýnt Jeff Bezos, stofnanda Amazon, og Richard Branson, stofnanda Virgin Group fyrir að brenna miklum fjár­munum í skemmti­ferðir út í geim á meðan milljónir manns svelta á jörðu niðri.

Í opnunar­ræðu aðal­fundar Sam­einuðu Þjóðanna sagði Guter­res at­hæfið undir­strika gríðar­lega mis­skiptingu auðs í sam­fé­laginu og stækkandi gjá milli fá­tækra og ofur­ríkra.

Guter­res segir svona hegðun verða til þess að al­menningur, sem margur á varla fyrir mat, fyllist van­trausti á kerfið.

„For­eldrar sjá fram­tíð fyrir börnin sín sem virðist enn grimmari en erfið­leikar dagsins í dag,“ segir Guter­res. En á sama tíma sjá þeir „milljarða­mæringa fara í skemmti­ferðir út í geim á meðan milljónir svelta á jörðu niðri.“

Bezos og Bran­son fóru í sitt­hvora geim­ferðina í sumar og þrátt fyrir að­eins nokkurra stunda veru í geimnum þá kostuðu ferðirnar nokkra milljarða dollara.

Þing­konan Eliza­beth War­ren segir Bezos hlæja framan í alla Banda­ríkja­menn sem raun­veru­lega borga skatta en því er haldið fram að Bezos hafi ekki borgað tekju­skatt í að minnsta kosti tvö ár.

Bezos greiddi 200 milljónum dollara til starfs­fólks Amazon í kjöl­far flugsins og þakkaði þeim fyrir hug­rekki og hæversku. Hann segist geta sam­mælst gagn­rýnis­röddum að ein­hverju leiti en bætir við að það þurfi bæði að huga að erfið­leikum hér og nú sam­hliða því að horfa til fram­tíðar.