Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, tjáði sig um deilur innan verkalýðshreyfingarinnar í viðtali á Sprengisandi í dag. Í viðtalinu gagnrýndi Drífa nýlegar hópuppsagnir á starfsfólki Eflingar stéttarfélags sem ráðist var í þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sneri aftur á formannsstól fyrir skemmstu og kallaði þær „hreinsanir.“

„Þetta kom mér mjög á óvart og ég held að þetta hafi komið flestum algjörlega í opna skjöldu, því svona hópuppsagnir eru nokkuð sem verkalýðshreyfingin hefur barist gegn,“ sagði Drífa. „Þetta er algjörlega fordæmalaus gjörningur. Þær ástæður sem eru gefnar eru ekki ástæður til að fara í hópuppsagnir, hvort sem það er að breyta launastrúktúr, standast jafnlaunavottun eða að breyta kjörum. Ég veit það af eigin reynslu.“

„Þetta eru ekkert annað en hreinsanir. Ég veit að hægt að fara í umbætur án þess að fara í slíkt. Svo er þetta rosalegt fordæmi sem er að gera. Ég myndi gagnrýna hvern einasta atvinnurekanda sem myndi taka svona ákvarðanir. Mér kom það afskaplega á óvart að átta manns skyldu standa á bak við þessa ákvörðun. Það kom mér á óvart að átta manns væru tilbúnir að samþykkja svona, enda komu harkaleg viðbrögð við þessu og ég held að verkalýðssinnað fólk hljóti að gagnrýna þetta.“

„Ég vil vara við því að róttækni sé það sama og að rífa kjaft.“

Þá sagði Drífa geta verið erfitt að festa hendur á málefnalegan ágreining í verkalýðsmálum þegar hann birtist. „Oft snýst þetta um persónu, snýst um stöðu, snýst um völd og svo framvegis. Þetta snýst um hversu langt fólk heldur að sitt lýðræðislega umboð nái. Þetta lýtur að því að við höfum kannski ekki náð almennilegum takti í samskiptum innan Alþýðusambandsins.“

Drífa lýsti yfir efasemdum um þá skýringu að deilur innan verkalýðshreyfingarinnar snúist um róttækni. „Ég vil vara við því að róttækni sé það sama og að rífa kjaft. Það er ekki það sama að vera róttækur og að nota stór orð. Það þarf stundum að grafa dýpra í hvað er róttækni og hvað ekki. Vissulega er það líka deilumál og ég held að allir hafi fundið fyrir því eftir að ég komst í forystusæti ASÍ að núverandi stjórn talar skýrar, háværar og róttækar en sú fyrri.“

„Það er eitthvert óþol gagnvart málamiðlunum, skoðanaskiptum, virðingu fyrir skoðunum annarra og svoleiðis,“ sagði Drífa. „Fólk er mismunandi upplagt í það.“