Fyrir fjárlaganefnd liggur nú breytingatillaga meirihlutans þess efnis að bæta bændum landsins hækkun áburðarverðs sem þeir segja mjög íþyngjandi fyrir rekstur búa sinna og ógna fæðuöryggi í landinu.

Verðhækkunin stafar af samdrætti í framleiðslu og erfiðleikum í vöruflutningum á tímum heimsfaraldurs, en almennt hafa aðföng til atvinnugreina í landinu hækkað mjög í verði af þessum sökum.

Talsmenn annarra atvinnugreina en landbúnaðarins eru gagnrýnir á þessa fyrirætlan stjórnvalda og segja hana hafna yfir jafnræði, en samkvæmt tillögu ríkisstjórnarflokkanna eiga 700 milljónir að renna aukalega til bænda á næsta ári til að bæta þeim hækkun áburðarverðs.

„Við erum óneitanlega hugsi yfir þessari ríkisaðstoð við eina atvinnugrein,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og bendir á að mörg fyrirtæki í innlendri matvælaframleiðslu sjái nú fram á miklar hækkanir á aðföngum vegna margvíslegra vandkvæða í hinni alþjóðlegu aðfangakeðju. „Það hefur ekki komið til tals að koma til móts við þau í þágu fæðuöryggis,“ bætir Ólafur við.

Hann segir að hækkun á heimsmarkaðsverði á áburði hafi væntanlega áhrif jafnt á verð innlendrar framleiðslu og innfluttra búvara. „Við spyrjum hvort það verði þá líka komið til móts við innflytjendur, í þágu fæðuöryggis. Og ef ekki, hvaða jafnræði er í því?“ spyr Ólafur Stephensen, en í því samhengi megi líka spyrja hvort áhrif á verð á kjöti og mjólk sé meira fæðuöryggismál en áhrif á verð ávaxta, grænmetis, hrísgrjóna eða pasta, svo dæmi sé tekið.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir aftur á móti eðlilegt að koma sérstaklega til móts við íslenska bændur sem þurfa á ræktartúnum í greinum sínum að halda. Eitt sé að glíma við 20 til 30 prósenta verðhækkun á aðföngum, svo sem í rúlluplasti og umbúðum eins og eigi við í hans tilviki sem grænmetisbónda, en verðhækkunin í innfluttum áburði sé út úr öllu korti, um 120 prósent „og það sjá það allir,“ segir Gunnar „að bændur glíma hér við algeran forsendubrest, í raun og sann neyðarástand,“ bætir hann við.

„Það getur engin atvinnugrein tekið álíka ósköp í gegnum verðlagið,“ heldur Gunnar áfram, „enda fer hið opinbera á öðrum Norðurlöndum alveg sömu leið og landbúnaðarráðherra leggur til hér á landi – og ráðherra á einmitt þakkir skildar fyrir að bregðast hratt og vel við í þessum efnum,“ segir Gunnar sem kveðst enn fremur furða sig á því, enn og aftur, að íslensk áburðarframleiðsla hafi verið lögð niður á sínum tíma „og sjoppunni einfaldlega lokað.“

En það séu nú einu sinni til talsmenn hér á landi sem vilji bara flytja allt inn, segir formaður Bændasamtakanna.