Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, segist skilja ákvörðun Jacindu Ardern um að hætta sem forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Sigurborg hætti sjálf í borgarstjórn árið 2021 eftir að hafa misst heilsuna sökum áreitis og mikils álags á vinnustað.
Hún segir að vinnuumhverfið í borgarstjórn hafi verið mjög eitrað og hún upplifað mikið af persónulegum árásum. Það sem henni hafi hins vegar þótt verst hafi verið áreiti sem hún upplifði frá almenningi. Fólk hafi veist að henni á samfélagsmiðlum, úti á götu, í strætó og í sundi.
„Fólk var til dæmis að setja út á það að ég væri svo heimsk að vita ekki að fólk þyrfti að nota bílinn sinn. Það voru ógeðslegir hlutir kallaðir á eftir mér þegar ég var úti að hjóla. Það voru send bréf heim til mín og ég fékk bara ekki að vera í friði neins staðar,“ segir Sigurborg.
Að sögn Sigurborgar kom áreitið mest komið frá háværum og ágengum hópi einstaklinga. Lýsir hún meðal annars fundi sem haldinn var í tengslum við göngugötur.
„Ég bara upplifði mig ekki örugga þarna. Það mætti bara fólk þangað og sýndi framkomu sem ég myndi hreinlega skilgreina sem ógnandi hegðun,“ lýsir Sigurborg.
Aukið áreiti telur Sigurborg tengjast bæði núverandi pólitísku umhverfi sem og auknu aðgengi fólks að stjórnmálamönnum. Fólk sem telji sig hafa orðið undir í samfélaginu líti svo á að það eigi harma að hefna og þeir sem lendi beint í skotlínunni séu pólitískir fulltrúar.
„Umhverfið var allt annað fyrir 30 eða 40 árum síðan þegar fólk hafði ekki sömu nánd við stjórnmálamenn og það hefur í dag. Umhverfið er líka bara orðið svo miklu meira árásargjarnt og fólk heldur að það sé í fullum rétti að líta á einstakling sem hefur vald sem vonda og ómerkilega manneskju,“ segir hún.
Sigurborg segir það mikinn missi að sjá Jacindu hætta. Hún hafi sýnt ofboðslegan styrk sem leiðtogi og hafi verið fyrirmynd margra víða um heim. Mörg erfið verkefni hafi komið á borð til hennar en hún hafi verið dugleg að takast á við þau málefni og komið lagabreytingum í gegn.
„Engu að síður gerir þetta umhverfi það að verkum að þessi sterka kona getur ekki meir,“ segir Sigurborg.
„Hún er gagnrýnd fyrir hvernig hún er máluð, hvernig hún klæðir sig og hvernig hún segir orðin og er það eitthvað sem ég þekki vel. Það rigndi stundum yfir mig póstum og símtölum frá fólki úti í bæ sem var brjálað yfir einhverju orði sem ég notaði. Þetta var alveg með ólíkindum.“
Sigurborg segir að á endanum hafi henni fundist eins og það væri verið að gagnrýna hana fyrir það eitt að vera til. Það hafi verið afar erfið tilfinning. Hún rifjar upp gamalt viðtal við Fréttablaðið þar sem hún tók í sama streng og Jacinda Ardern. „Við erum öll mannleg, við gleymum því bara stundum.“