Umhverfisstofnun hafnaði í dag beiðni skotveiðifélagsins SKOTVÍS um að bæta við aukahelgi í byrjun desember þar sem leyfilegt yrði að veiða rjúpu. Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar kemur fram að árin 2002 og 2005 hafi fjöldi leyfilegra veiðidaga haft áhrif á sókn.
„SKOTVÍS mótmælir slíkri rökleiðslu. Árið 2002 var ekki sölubann og árið 2005 hófust veiðar að nýju eftir tveggja ára friðun stofnsins og veiðitíminn var 47 dagar,“ segir í Facebook færslu félagsins um málið.
„Það er öllum ljóst að sölubann á rjúpu skipti höfuðmáli í að draga úr sókn í stofninn og þegar veiðar hefjast að nýju eftir friðun þá er 2005 varla marktækt ár.“ Fjöldi leyfilegra veiðidaga hafi því ekki skipt máli síðustu fjórtán ár að mati SKOTVÍS.
„Þegar tölfræði er unninn þá er oftast reynt að finna úrtak sem er samstætt, þessi tvö ár eru það ekki, þau eru ómarktæk og fagleg stofnun á að vita það.“ Veiðifélagið bendir á að það hafi ekki verið ætlunin að fara fram á fjölgun veiðidaga úr 22 í 47.
„Það voru tveir dagar, tveir dagar á fordæmalausum tímum þegar fyrstu tvær helgarnar voru tilmæli frá stjórnvöldum að menn héldu EKKI til veiða.“ Ljóst hafi verið að margir hafi sleppt því að fara á veiðar.
„Og talandi um fordæmalausa tíma þegar eitthvað stórt dynur á, ófyrirséð og hefur lamandi áhrif á samfélagið kallast það yfirleitt Force majure.“ Þá sé eðlilegt í þeim tilvikum að aðilar setjist niður, meti áhrifin og semji nýjar reglur. Rjúpnaveiðitímabilinu lauk í dag.
Umhverfisstofnun hefur hafnað beiðni SKOTVÍS um að bæta við aukahelgi í byrjun desember og opna SV svæðið fyrir...
Posted by Skotveiðifélag Íslands Skotvís on Monday, November 30, 2020