Hætta er á því að sjónvarpsþættirnir Ráðherrann geti alið á auknum fordómum gagnvart fólki sem glími við andleg veikindi og ýtt undir þöggun sem ríki oft um geðræn vandamál.

Þetta segja einstaklingar sem nýta sér þjónustu Hugarafls, grasrótarsamtaka fólks með andlegar áskoranir.

Sjónvarpþættirnir voru ræddir á reglulegum fundi Hugarafls í gær en þar kom fram að sumum hafi fundist erfitt að fylgjast með glímu aðalpersónunnar Benedikts Ríkharðssonar við geðhvarfasýki.

Voru flestir á því að handritshöfundar þáttanna hafi mátt gæta betur að birtingarmynd veikindanna og hvaða skilaboð hún geti skilið eftir hjá áhorfendum.

„Það er svolítið mikið spilað inn á staðalímynd geðhvarfasýkinnar og verið að gefa til kynna að það fylgi því skömm að glíma við geðræn vandamál,“ segir Hugaraflskonan Anna Karen Friðfinnsdóttir sem ræddi umræðuefni fundarins við Fréttablaðið.

Ýti undir gamlar mýtur

„Okkur fannst svona frekar neikvæð mynd dregin upp af þessu. Auðvitað eru þetta bara sjónvarpsþættir og það er ekki verið að reyna að fræða fólk um geðsjúkdóma en þarna er svolítið verið að ýta undir gamlar mýtur um að fólk með andlegar áskoranir sé hættulegra en annað fólk.“

Þar vísar Anna meðal annars til atriðis þar sem Benedikt sést beita aðstoðarkonu sína kynferðisofbeldi á meðan hann upplifði maníu.

Eitt af áberandi stefjum þáttanna er baráttan við að halda veikindum Benedikts, sem gegnir þá stöðu forsætisráðherra, leyndum frá þjóðinni og fólkinu í kringum hann.

„Það voru allir sammála í þáttunum um að þetta væri eitthvað sem þú þyrftir að fela og eitthvað sem þú þyrftir að skammast þín fyrir og svona kannski verið að ýta undir það. Það var enginn persóna í þáttunum þannig séð sem hafði einhverja aðra sýn á þetta,“ segir Anna.

Þó hafi það verið jákvætt þegar Benedikt tók þá ákvörðun í lok þáttaraðarinnar að upplýsa þjóðina um veikindi sín.

Ekki um að ræða einsdæmi

Að mörgu leyti sé margt sameiginlegt með þáttunum og þeim neikvæðu hugmyndum um geðsjúkdóma sem birtist reglulega í skáldverkum.

„Okkur fannst þetta svona á svipuðum slóðum og þetta birtist kannski annars staðar. Við töluðum um að það mætti kannski nota þessa þætti sem tækifæri til að ræða betur andlegar áskoranir. Eins og í tilviki Benedikts þá er þetta náttúrulega ekki manneskjan sem er að láta svona heldur eru þetta veikindin.“

Þá hafi Hugaraflsfólk eins og áður segir áhyggjur af því að nálgun þáttanna geti ýtt undir frekari fordóma gagnvart fólki með geðrænar áskoranir.

„Þetta er ekki til þess að koma umræðunni í þann farveg sem við vildum óska eftir heldur er svona verið að ýta undir meiri fordóma og ýta undir þessa staðalímynd.“

Í þáttunum fylgjumst við með beinskeytta stjórnmálamanninum Benedikt Ríkharðssyni tryggja sér forsætisráðherrastólinn með hjálp mikilla persónutöfra.
Mynd/Lilja Jóns

Mikilvægt að rithöfundar séu meðvitaðir um skilaboðin

Einnig gerir Hugaraflsfólk athugasemd við að fáir hafi látið veikindi Benedikts sig varða.

„Hann fer náttúrulega rosalega hátt upp í maníunni og það sem sló kannski er að það virtist ekki vera neinn að veita því athygli að maðurinn að var ekki heill heilsu. Hann var látinn fara rosalega langt og það var enginn sem virtist átta sig á neinu. Það var kannski ekki mjög raunverulegt.“

Að lokum segir Anna mikilvægt að rithöfundar hugi vel að þeirri mynd sem birtist af fólki með andleg veikindi í skáldverkum sínum.

„Eins og ég segi við skiljum alveg að auðvitað er þetta sjónvarpsþáttur og sett fram sem afþreying, það er ekki verið að búa til þátt til að fræða fólk um geðræn vandamál. En það væri mjög áhugavert ef það væri gætt betur að þessu og komið með einhverja aðra sýn inn í þennan heim, að þetta sé ekki eitthvað sem er rosalega hættulegt og sé ekki eitthvað sem verður að fela. Eins og við ræðum í Hugarafli þá eru andlegar áskoranir í rauninni eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.“