Nokkrir þingmenn kvöddu sér hljóðs á þingfundi í dag og gagnrýndu ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir að taka ekki undir þingmannamál en stela þeim svo og leggja fram sjálfir. Fjögur slík þingmál séu á dagskrá þingfundar í dag. 

„Við erum hér með til meðferðar í dag fjögur stjórnarfrumvörp sem eru í reynd að koma fyrir þingið öðru sinni vegna þess að öll eiga þessi mál það sameiginlegt að hafa áður verið lögð fram af þingmönnum stjórnarandstöðu. Öll eiga þessi mál það sameiginlegt að koma fram í nánast sama búningi alveg óbreyttum eða lítillega klæðskera sniðin,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingaður Viðreisnar á Alþingi í dag en hún kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta ásamt öðrum þingmönnum í stjórnarandstöðu.

Þorbjörg Sigríður nefndi sem dæmi sem hún lagði sjálf fram um réttarbætur fyrir börn vegna barnaníðs á netinu. „Mig langaði til að ræða það hér hvort það geti verið að við getum sammælst um það að ætla að vinna með öðrum hætti en þessum og hvort við getum kannski farið að bera virðingu fyrir því að við erum stundum að vinna saman að góðum málum og hvort málin hér í þinginu megi stundum njóta þess.“

Meðal mála sem eru á dagskrá þingfundar í dag er frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta ólöglegra fíkniefna. Það sætti mikilli gagnrýni í fyrra þegar þingmál Pírata um sama efni var fellt í þinginu þrátt fyrir að flestir þingmenn hefðu lýst sig sammála efni frumvarpsins.

Þetta er bara lélegt

Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata tók einnig til máls um þetta efni og rifjaði upp skólaböll með hljómsveitinni Skítamóral. „Skemmtilegasta atriðið hjá þeim var Syrpan svokallaða þar sem þeir tóku með sínu nefi ýmis íslensk og erlend dægurlög og flutti okkur framhaldsskólanemum. Ég fæ sömu tilfinningu þegar ég sé dagskrá fundarins hér í dag og ég fékk þá nema við erum ekki í Njálsbúð árið 1996.“

Fréttablaðið/Ernir

Andrés Ingi segir þessa framgöngu ráðherra lélega: „Við erum á Alþingi Íslendinga og það sem ríkisstjórnin býður okkur er endurflutningur á fjórum góðum þingmálum stjórnarandstöðunnar, vegna þess að fólk er svo ofboðslega fast í þeim förum að ekki megi samþykkja tillögur ef þær koma úr vitlausri átt.“

Sóun á starfskröftum þingmanna

Mynd/Sigtryggur Ari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, kallaði það „sóun á starfskröftum þingmanna að ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki hugsað sér að styðja góð mál sem koma frá stjórnarandstöðuflokkunum en mæta svo korteri síðar, með eigin mál sem eru algjörlega sambærileg.“

Helga Vala tók afglæpavæðingu neysluskammta sem dæmi. Það mál hafi verið unnið ítarlega í velferðarnefnd. Þegar þeirri vinnu var lokið hafi hafi stjórnarliðar og ekki treyst sér til að styðja það af því einhverja skilgreiningu á magni hafi vantað.

„Maður veltir fyrir sér: Af hverju koma þeir ekki bara með breytingartillögu við þau þingmál sem er búið að eyða öllum þessum tíma í að vinna.“

„Maður veltir fyrir sér: Af hverju koma þeir ekki bara með breytingartillögu við þau þingmál sem er búið að eyða öllum þessum tíma í að vinna í háttvirtri velferðarnefnd. Hún er með alveg nóg á sinni könnu þó að hún sé ekki að marg endurvinna sömu málin,“ sagði Helga Vala.

Segist halda ættfræði nýrrar fíkniefnastefnu til haga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælir nú fyrir frumvarpi um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna.

Fyrsta umræða frumvarps heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta fer nú fram á Alþingi. Í upphafi framsöguræðu sinnar sagðist Svandís Svavarsdóttir viðurkenna framlag og frumkvæði Pírata í málinu.

„Ég finn fyrir því að fólki er eðlilega mikið í mun að ættfræði þessa málaflokks sé haldið til haga. Ég hef mikinn skilning á því. Ég vil að það komi fram strax að sú sem hér stendur hefur lagt áherslu á halda þessu til haga þegar þessi mál hafa verið rædd; að halda til haga því frumkvæði sem kom úr þingflokki Pírata á sínum tíma.“