Sam­göngu­sátt­málinn sem undir­ritaður var í vikunni var ræddur í Silfrinu í dag en þar komu saman Ey­þór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, og Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar.

Fjár­mögnun fyrir sátt­málann reyndist verða fyrir mestu gagn­rýninni en af þeim 120 milljörðum sem þarf til að fram­kvæma sátt­málann er gert ráð fyrir að 60 milljarðar verði aflað með gjald­tökum og sölu á eignum ríkisins.

Þörf á að ræða málin frekar

„Með þessu virðist ríkið bara ætla að taka að sér að fjár­magna kosninga­lof­orð Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík,“ sagði Sig­mundur og segir það stór­undar­legt mál að leggja fram sam­komu­lagið, sem felur í sér út­gjöld upp að 120 milljörðum á fimm­tán árum, án þess að leggja fram samnings­drögin áður eða kynna málið fyrir þing­nefnd. Hann dregur einnig í efa að fram­kvæmdirnar muni borga sig.

Ey­þór, Logi og Þor­gerður voru sam­mála því að þörf væri á fram­kvæmdum og tóku því fagnandi að loft­lags- og sam­göngu­mál væru til um­ræðu en töldu að það þyrfti að ræða sam­komu­lagið frekar. „Þetta eru náttúru­lega ó­líkir flokkar sem að koma þarna að en það eru samt meira og minna allir sem koma að þessu,“ sagði Þor­gerður Katrín og spáði því að þegar málið kæmi fyrir þingið væri það í þeirra höndum ná sam­komu­lagi.

Samgöngusáttmálinn var kynntur síðastliðinn fimmtudag.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Nauðsynlegt að hugsa lengra

Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, svaraði í kjöl­far um­ræðanna um þá gagn­rýni sem kom upp og sagði allt í sam­komu­laginu væri byggt á nú­gildandi sam­göngu­lögum. Hann segir verk­efni sitt sem sam­göngu­ráð­herra vera að leysa ýmsa vanda sem stafa af lofts­laginu og um­ferðinni.

„Allt það sem við höfum verið að gera og það sem ég hef verið að leggja á­herslu á síðan ég fór inn í ráðu­neytið er að við verðum að hugsa lengra,“ segir Sigurður og segir mikil­vægt að hag­aðilar séu með sömu fram­tíðar­sýnina. Að­spurður hvort um sé að ræða á­kveðna mála­miðlun milli bíl­not­enda og þeirra sem nýta sér al­mennings­sam­göngur þá segir hann að svo megi vera.

Sigurður segir verkefni sitt sem samgönguráðherra sé að leysa ýmsa vanda sem stafa af umferð og loftslaginu.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Sigurður Ingi neitar að svara gagn­rýni Sig­mundar að hann sé að fjár­magna kosninga­lof­orð Dags B. Eggerts­sonar en segir að þeir sem þekki til segi að þetta verk­efni leysi vandann. Hann sakar Sig­mund um að kynna sér ekki málin og bendir því til stuðnings um­ræðu Sig­mundar um borgar­línuna.

Hvað gagn­rýnina á gjald­tökuna varðar segir hann þá gjald­töku sem um ræðir í verk­efninu vera eitt­hvað sem Ís­lendingar hafa alltaf þekkt, til dæmis með Hval­fjarðar­göngunum. Hann segir um­ferðar­gjöldin fari öll í verk­efnið en hvernig það verði gert sé enn í út­færslu.