Endalok næturstrætó hefur verið harðlega gagnrýnt af fólkinu í landinu og margir telja að það þurfi að gera stórvægilegar breytingar á rekstri Strætó.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og varaformaður stjórnar Strætó vonast til þess að geta haldið þjónustunni áfram í Reykjavík, en það er hægara sagt en gert að finna fjármagn til að halda næturstrætó gangandi.
„Þetta var ekkert brjálæðislega góð mæting. Ég er samt ekkert endilega sammála því að það hafi verið eitthvað skelfileg mæting, það var kannski á sumum leiðum verri notkun, en hún var bara allt í lagi held ég. En ef Strætó hefur ekki fjármagn til að reka þjónustuna, þá getur hann ekki rekið þetta,“ segir Alexandra.
Hún segir að um tilraunaverkefni hafi verið að ræða, en ljóst er að tekjurnar væru ekki nægar til að halda verkefninu áfram. Alexandra vill samt sem áður finna leið til þess að halda þjónustunni áfram innan Reykjavíkur.
„Reykjavíkurborg er spennt fyrir því að reyna halda þessu áfram og við erum að skoða það að halda næturstrætónum áfram innan Reykjavíkur. Það er alltaf möguleiki, en við þurfum að skoða hvort við finnum fjármagnið fyrir þetta,“ segir Alexandra.
Væri það ekki ósanngjarnt ef þjónustan væri aðeins í boði innan Reykjavíkur?
„Ég er alveg sammála því að það væri mjög leiðinlegt fyrir fólk sem býr í hinum sveitarfélögunum ef Strætó gengur til Reykjavíkur en ekki til þeirra. En við Reykjarvíkurmeginn getum ekki einhliða ákveðið annað en það,“ segir Alexandra.
Gagnrýna greiðslukerfi Strætó
Greiðslukerfi Strætó hefur verið harðlega gagnrýnt af notendum Strætó og hafa margir notendur lýst yfir vonbrigðum sýnum hve erfitt var að komast í næturstrætó. Alexandra segir að það sé verið að þróa nýtt kerfi, en það sé hægara sagt en gert.
„Ég þori að fara með einhverjar tímasetningar, en þetta er í þróun og innleiðingu. Það eru frekar strangir öryggisstaðlar til að mega vera með snertilausar greiðslur. Þetta er samningsatriði við meira að segja snjallsímaframleiðendurnar og allt það, þetta er miklu flóknara en ég átti von á. En það er verið að vinna í þessu og ég á von á því að það fari að styttast í það,“ segir Alexandra.
„Í næturstrætó er þetta búið að vera sérstaklega flókið og þar vorum við bara að redda þessu á handahlaupum með GSM posa. Það er ekki góð lausn og nær engu samhengi við appið,“ segir Alexandra.
Ég tók næturstrætó um daginn. Hann var einstaklega óaðgengilegur. Ekki hægt að borga með strætó appinu né klapp. Það var ekki posi sem var hægt að greiða með. Ég sem betur fer var með seðla á mér þannig ég fékk far heim, en hinir 20-30 voru eftir. https://t.co/jkKnlSt1G4
— Ingveldur Anna (@ingvelduranna97) October 18, 2022
Næturstrætó hætti að ganga klst áður en mesta eftirspurnin var eftir honum. Hann var óaðgengilegur, illa auglýstur og auk þess flókið að greiða fargjald þökk sé Klappinu. Þó voru að meðaltali 14 manns í hverjum vagni - en engu að síður ákvað Strætó að hætta þessari þjónustu. Vá.
— Geir Finnsson (@geirfinns) October 18, 2022
Telur að þörfin muni aukast í vetur
Alexandra segir að hún væri ekki að segja frá hugmyndinni um að halda næturstrætó áfram í Reykjavík nema hún teldi að það væri raunverulega möguleiki á því. Hún segir að næturstrætó gæti verulega dregið úr álaginu á leigubílum.
„Ég held líka að þörfin muni aukast eitthvað aðeins í vetur þegar það verður kaldara og fólk nennir minna að labba eða taka Hopp hjól. Við vonum bara hið besta,“ segir Alexandra.
Þetta er ótrúlega leiðinlegt, en ég vil að það komi fram að Reykjavíkurborg er að skoða það hvort við getum haldið Næturstrætó gangandi amk. á leiðunum innan borgarinnar.https://t.co/DwiFULoOXm
— Alexandra Briem (@OfurAlex) October 18, 2022
Niðurgreiðsla á almenningssamgöngum skiptir máli
Stærfræðingurinn og fyrrum borgarfulltrúi Viðreisnar, Pawel Bartoszek gagnrýnir að næturstrætó hafi verið lagður niður vegna þess að notkunin hafi ekki staðist væntingar. Hann tekur fram að 3000 farþegar hafi nýtt sér næturstrætó í júlí og í ágúst, sem er að meðaltali fjórtán til sextán manns í hverri ferð.
„Þetta er spurning um pólitík og forgangsröðun. Ríkið niðurgreiðir sérstaklega innanlandsflug á Bíldudal, Gjögur Grímsey, Vopnafjörð, Þórshöfn og Höfn. Beinn kostnaður við þessar niðurgreiðslur nemur HÁLFUM MILLJARÐI á árin. Og þá er kostnaðurinn við grunninnviðina ekki með.
Samanlagður farþegafjöldi á þessa staði var 10 ÞÚSUND árið 2020,“ segir Pawel.
Hann segir að ríkið getur alveg ákveðið að ákveðin grunnþjónusta sé það nauðsynleg að því beri að halda henni upp.
„En ef hagsmunir höfuðborgarsvæðisins myndu hljóta sömu athygli gæti Alþingi alveg eins ákveðið að niðurgreiðsla á almeninngssamgöngum, þar með talið á nóttunni, skipti líka máli,“ segir Pawel.