Enda­lok nætur­strætó hefur verið harð­lega gagn­rýnt af fólkinu í landinu og margir telja að það þurfi að gera stór­vægi­legar breytingar á rekstri Strætó.

Alexandra Briem, borgar­full­trúi Pírata og vara­for­maður stjórnar Strætó vonast til þess að geta haldið þjónustunni á­fram í Reykja­vík, en það er hægara sagt en gert að finna fjár­magn til að halda nætur­stræ­tó gangandi.

„Þetta var ekkert brjál­æðis­lega góð mæting. Ég er samt ekkert endi­lega sam­mála því að það hafi verið eitt­hvað skelfi­leg mæting, það var kannski á sumum leiðum verri notkun, en hún var bara allt í lagi held ég. En ef Strætó hefur ekki fjár­magn til að reka þjónustuna, þá getur hann ekki rekið þetta,“ segir Alexandra.

Hún segir að um til­rauna­verk­efni hafi verið að ræða, en ljóst er að tekjurnar væru ekki nægar til að halda verk­efninu á­fram. Alexandra vill samt sem áður finna leið til þess að halda þjónustunni áfram innan Reykjavíkur.

„Reykja­víkur­borg er spennt fyrir því að reyna halda þessu á­fram og við erum að skoða það að halda nætur­stræ­tónum á­fram innan Reykja­víkur. Það er alltaf mögu­leiki, en við þurfum að skoða hvort við finnum fjár­magnið fyrir þetta,“ segir Alexandra.

Væri það ekki ó­sann­gjarnt ef þjónustan væri að­eins í boði innan Reykja­víkur?

„Ég er alveg sam­mála því að það væri mjög leiðin­legt fyrir fólk sem býr í hinum sveitar­fé­lögunum ef Strætó gengur til Reykja­víkur en ekki til þeirra. En við Reykjar­víkur­meginn getum ekki ein­hliða á­kveðið annað en það,“ segir Alexandra.

Gagn­rýna greiðslukerfi Strætó

Greiðslu­kerfi Strætó hefur verið harð­lega gagn­rýnt af not­endum Strætó og hafa margir notendur lýst yfir vonbrigðum sýnum hve erfitt var að komast í næturstrætó. Alexandra segir að það sé verið að þróa nýtt kerfi, en það sé hægara sagt en gert.

„Ég þori að fara með ein­hverjar tíma­setningar, en þetta er í þróun og inn­leiðingu. Það eru frekar strangir öryggis­staðlar til að mega vera með snerti­lausar greiðslur. Þetta er samnings­at­riði við meira að segja snjall­síma­fram­leið­endurnar og allt það, þetta er miklu flóknara en ég átti von á. En það er verið að vinna í þessu og ég á von á því að það fari að styttast í það,“ segir Alexandra.

„Í nætur­strætó er þetta búið að vera sér­stak­lega flókið og þar vorum við bara að redda þessu á handa­hlaupum með GSM posa. Það er ekki góð lausn og nær engu sam­hengi við appið,“ segir Alexandra.

Telur að þörfin muni aukast í vetur

Alexandra segir að hún væri ekki að segja frá hug­myndinni um að halda nætur­strætó á­fram í Reykja­vík nema hún teldi að það væri raun­veru­lega mögu­leiki á því. Hún segir að nætur­strætó gæti veru­lega dregið úr á­laginu á leigu­bílum.

„Ég held líka að þörfin muni aukast eitt­hvað að­eins í vetur þegar það verður kaldara og fólk nennir minna að labba eða taka Hopp hjól. Við vonum bara hið besta,“ segir Alexandra.

Niðurgreiðsla á almenningssamgöngum skiptir máli

Stærfræðingurinn og fyrrum borgar­full­trúi Viðreisnar, Pawel Bar­toszek gagn­rýnir að nætur­strætó hafi verið lagður niður vegna þess að notkunin hafi ekki staðist væntingar. Hann tekur fram að 3000 far­þegar hafi nýtt sér nætur­strætó í júlí og í ágúst, sem er að meðal­tali fjór­tán til sex­tán manns í hverri ferð.

„Þetta er spurning um pólitík og for­gangs­röðun. Ríkið niður­greiðir sér­stak­lega innan­lands­flug á Bíldu­dal, Gjögur Gríms­ey, Vopna­fjörð, Þórs­höfn og Höfn. Beinn kostnaður við þessar niður­greiðslur nemur HÁLFUM MILLJARÐI á árin. Og þá er kostnaðurinn við grunninn­viðina ekki með.
Saman­lagður far­þega­fjöldi á þessa staði var 10 ÞÚSUND árið 2020,“ segir Pawel.

Hann segir að ríkið getur alveg á­kveðið að á­kveðin grunn­þjónusta sé það nauð­syn­leg að því beri að halda henni upp.

„En ef hags­munir höfuð­borgar­svæðisins myndu hljóta sömu at­hygli gæti Al­þingi alveg eins á­kveðið að niður­greiðsla á al­meninngs­sam­göngum, þar með talið á nóttunni, skipti líka máli,“ segir Pawel.