Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir harðlega bókun sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þann 24. nóvember síðastliðinn en í bókuninni, sem tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram, var lagt til að gert yrði ráð fyrir plássum fyrir ungt fatlað fólk við stækkun hjúkrunarheimilis í Boðaþingi.

Þar kom fram að óskir hafi borist frá ungu fólki í Kópavogi um sólarhringsþjónustu vegna lömunar eða færniskerðingar en að óskir þeirra ættu það sameiginlegt að ekkert þeirra gæti hugsað sér að fá þjónustu með eldra fólki á hjúkrunarheimilum.

„Við teljum því brýnt að horft verði til þessara einstaklinga við hönnun hjúkrunarheimilisins þar sem tekið væri tillit til félagslegra og tilfinningalegra þátta þessara skjólstæðinga um leið og almenn og sértæk þjónusta væri tryggð,“ segir í bókuninni sem Guðmundur Geirdal og Karen Elisabet Halldórsdóttir lögðu fram.

Sex fulltrúar tóku undir bókunina en Sigurbjörg E. Egilsdóttir lagði fram bókun þess efnis að mikilvægt væri að hafa samráð við fatlað fólk. "Ef til stendur að byggja upp stofnanaúrræði fyrir fatlað fólk er mikilvægt að það sé gert í samráði við notendur og tryggt að það komi ekki niður á frelsi þeirra til þess að velja hvers konar þjónustu það kýs að þiggja.“

Dæmi um að fólki sé markvisst beint inn á heimili

Í ályktun sem Málefnahópar Öryrkjabandalags Íslands um húsnæðismál og sjálfstætt líf sendu til bæjarfulltrúa í dag voru alvarlegar athugasemdir gerðar við stöðu fatlaðs fólks undir 67 ára aldri sem er vistað gegn vilja sínum á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum. Ítrekað er að sveitarfélög þurfi að fylgja lögum um þjónustu við fatlað fólk.

Dæmi séu um að sveitarfélög og sjúkrastofnanir beini fólki markvisst inn á heimili í stað þess að veita fólki aukna þjónustu heim. „Hjúkrunarheimili eru hugsuð fyrir eldri borgara og henta yngra fólki afar illa auk þess sem stefnt hefur verið að því opinberlega að afstofnanavæða búsetu fatlaðs fólks,“ segir í ályktuninni en þar kemur fram að í dag séu 147 einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum.

Þrengt að réttindum fatlaðs fólks

Þá séu dæmi um að fólk hafi þurft að dvelja gegn vilja sínum inni á sjúkrahúsi í lengri tíma í bið eftir plássi á hjúkrunarheimili, verið synjað um aukna umönnun heima og ekki kynnt NPA þjónusta eða hún tengd kvóta eða tímatakmörkunum. Þess er krafist að sveitarfélögin geri fatlað fólk ekki að „bitbeini sínu“ um aukið fjármagn frá ríkinu heldur standi við skuldbindingar sínar og fylgi settum lögum.

„Það er með öllu óásættanlegt að sveitarfélögin þrengi að réttindum fatlaðs fólks með ólögmætum hætti. Þá skulu yfirvöld fjölga úrræðum og sveigjanleika svo fatlað fólk geti átt sitt heima með sömu reisn og aðrir,“ segir að lokum í ályktuninni. „Stofnanavæðing gegn vilja fatlaðs fólks er svartur blettur á íslensku samfélagi sem á að heyra fortíðinni til,“ segir að lokum.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Ótrúlegt að fólk telji stofnanavist hið rétta í stöðunni

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir ótrúlegt að enn skuli fyrirfinnast fólk sem telur það best fyrir fatlað fólk að vera vistað á stofnunum. Hún vísar til frétta af Arnarholti og þá skelfilegu birtingamynd stofnanavæðingar þar.

„Ég er ekki að segja að hið sama muni eiga sér stað í dag, en þetta er samt ein af meginástæðum þess að alls staðar er verið að horfa á sjálfstæða búsetu með viðeigandi aðstoð, eins og NPA veitir, en alls ekki stofnanavist,“ segir Þuríður í samtali við Fréttablaðið.

Gengur þvert gegn baráttu fatlaðs fólks

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar, lýsti einnig yfir vonbrigðum með bókunina í færslu á Facebook síðu sinni en hann sagði að vita til þess að fötluðu fólki hafi ekki verið kynnt sín réttindi. Hann minnti bæjarfulltrúana um að það hafi verið stefna síðustu ára að hverfa frá stofnanaúrræðum fyrir fatlað fólk.

„Sú stofnanavæðing sem bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðist nánast einhuga um að vekja aftur til lífsins, gengur þvert gegn áralangri baráttu fatlaðs fólks fyrir virðingu og réttinum til sjálfstæðs lífs, og er okkur gríðarleg vonbrigði að upplifa á árinu 2020,“ segir Rúnar í færslunni og bætti við að lög væru í gildi um þjónustu við fatlað fólk.

Ég á eiginlega erfitt með að koma því frá mér hversu vonsvikin ég er yfir því að sjá eftirfarandi ályktun frá fulltrúum...

Posted by Rúnar Björn Herrera Þorkelsson on Föstudagur, 27. nóvember 2020