Borið hefur á gagnrýni á samfélagsmiðlum eftir að tilkynnt var um tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir síðasta ár og þá sérstaklega vegna flokksins Plata ársins í rappi og hip hopi.

Athygli vekur að aðeins þrjár plötur eru tilnefndar meðan fimm tilnefningar eru í flestum öðrum flokkum og er breiðskífa Flona, Floni II, ekki þar á meðal né plata Herra Hnetusmjörs, KBE Kynnir: Dögun, en þær voru einna mest streymdu íslensku plöturnar árið 2019. Lagið Falskar ástir af plötu Flona er þó tilnefnt sem lag ársins í hip hopi.

Floni er ekki heldur tilnefndur til neinna verðlauna á Hlustendaverðlaununum sem útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og X977 standa að. Verðlaunin eru byggð á kosningu en tilnefningarnar sjálfar eru ákveðnar af útvarpsstöðvunum.

Í færslu sem Ísak Hinriksson skrifar á Facebook síðu sinni um að platan hefði átt að vera tilnefnd taka margir í sama streng meðal annars Bubbi Morthens:

„Þetta hefur verið svona æði lengi og misjafnt hvaða tala kemur upp þegar teningunum er kastað því miður,“ segir Bubbi en hann er tilnefndur í ár meðal annars fyrir bestu poppplötuna.

Tónlistarkonan Rósa Birgitta Ísfeld rifjar einnig upp að Gísli Pálmi hlaut ekki tilnefningu þegar hann gaf út plötu sína, Gísli Pálmi, 2015 sem þótti marka kaflaskil í íslensku hip hop senunni. Þá var flokkur fyrir rapp og hip hop né raftónlist einfaldlega ekki til.

Í flokknum rapp og hip hop eru tilnefnd í ár:

Cell7 – Is anybody listening?
Countess Malaise – HYSTERÍA
Joey Christ – Joey 2

Verðlaunaafhendingin fer fram þann 11. mars næstkomandi.

Ekki náðist í forsvarsmenn Íslensku tónlistarverðlaunanna við vinnslu fréttarinnar.