Svimandi hækkun Landsbankans á launum bankastjórans er ekki neinu einasta samræmi við stefnu og yfirlýsingar forystumanna ríkisstjórnarinnar. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Eins og Fréttablaðið greinir frá í dag hafa laun bankastjóra Landsbankans, sem er í eigu ríkisins, snarhækkað á örskömmum tíma. Frá 1. júlí 2017 til 1. apríl 2018 hafa þau hækkað úr 2.089 þúsund krónum í 3.800 þúsund krónur. Það gerir hækkun um rúmar 1,7 milljónir á mánuði, eða tæp 82 prósent á þessu tíu mánaða tímabili. Um er að ræða laun og bifreiðahlunnindi.

Sjá einnig: Laun Lands­banka­stjóra hækkuðu um 82% á innan við ári

Ragnar segir að þessi hækkun sé í engum takti við það hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað. Hann bendir á að sumir hafi sagt að kröfur verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum sturlaðar og nefnir þar seðlabankastjóra og ýmsa greiningaraðila. „Við hljótum að gera þá kröfu til ráðamanna þjóðarinnar - og þeirra sem taka ákvarðanir tengda bankasýslu og stjórn Landsbankans – að þeir praktíseri það sem þeir predika.“ Þessar fregnir séu ekki til þess fallnar að stuðla að stöðugleika eða ná samkomulagi um launauppbyggingu verkafólks. „Þetta er óþolandi ásand. Við eigum að geta gert þá kröfu að stjórnendur ríkisfyrirtækja og embættismenn almennt gangi fram með góðu fordæmi.“

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að ákvörðun bankaráðs um laun bankastjóra í fyrra byggi á starfskjarastefnu bankans. Þar segir að starfskjör stjórnenda og annarra starfsmanna bankans eigi að vera samkeppnishæf en ekki leiðandi.

„Kjör bankastjóra Landsbankans voru á sínum tíma felld undir kjara­ráð og var bankastjóri eini æðsti stjórnandi fjármálafyrirtækis sem féll undir ráðið. Þetta varð m.a. til þess að laun bankastjóra Landsbankans voru mun lægri en laun annarra stjórnenda í fjármálakerfinu. Laun bankastjóra Landsbankans hafa nú verið færð nær þeim kjörum sem almennt gilda fyrir æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækja,“ segir í svari bankans við fyrirspurn blaðsins.

Ragnar segir að þessar skýringar séu mjög dapurlegar og leggur til að staðan verði auglýst. Hægt sé að finna fjölmargt hæfileikafólk sem væri tilbúið að stýra bankanum fyrir helmingi lægri laun, eða um tvær milljónir á mánuði. Bankinn þyrfti á því að halda að stjórnandi hans væri í meiri tengslum við raunveruleikann, hvað kaup og kjör varðar, og hafi tilfinningu fyrir samfélaginu. „Þeir ættu að prufa að auglýsa stöðuna, sem er ein valdamesta staða samfélagsins. Þetta er staður í okkar samfélagi sem framleiðir ekki neitt. Landsbankinn veitir þjónustu fyrir gjald.“ Hann gefur lítið fyrir tal um samkeppnishæfni og segir að sér vitanlega sé lítil sem engin eftirspurn eftir íslenskum stjórnendum á alþjóðavettvangi.

Ragnar talar um háan stjórnunarkostnað á Íslandi og nefnir lífeyrissjóðina í því samhengi. Hann segir að Steve Edmundson, stjórnandi lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna í Nevada sé með um 1,3 milljónir króna á mánuði. VR hafi reynt að fá hann til landsins fyrir skömmu, til að kynna störf sín. Hann reki lífeyrissjóð sem sé stærri en allt íslenska lífeyriskerfið samanlagt. 4.400 milljarðar. Hér séu allt of margir sjóðir og forstjórar sem vinni nákvæmlega sömu vinnuna. Þeir sjúgi spenann „og sjúgi fast“. Hann nefnir í því samhengi að stjórnandi Lífeyrissjóðs verslunarmanna einn og sér sé með um 40 milljónir króna í árslaun. „Ábyrgð þeirra er vissulega mikil en það er mikið af hæfu fólki sem gæti sinnt þessum stöðum.“ Í lífeyrissjóðskerfinu séu miklir möguleikar til hagræðingar.

Ragnar Þór hefur talað fyrir því að Landsbankinn verði gerður að svokölluðum samfélagsbanka. Miðstjórn ASÍ ályktaðir um það í síðustu viku. „Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka enda er almenningur langþreyttur á skorti á samkeppni á fjármálamarkaði, miklum kostnaði og háu vaxtastigi hér á landi,“ sagði í ályktuninni.

Ragnar segir að hugmyndin njóti víðtæks stuðnings almennings. Kannanir hafi sýnt að mikill meirihluti landsmanna sé hlynntur því að ríkið rekið banka. Hlutfallið sé um 80 prósent. Sams konar bankar hafi gefið afar góða raun erlendis. Hann nefnir Sparkasasse í Þýskalandi og Norður-Dakóta bankann. Fyrirkomulagið njóti gríðarlegs trausts í samfélaginu og þessir bankar hafi staðið af sér heimsstyrjaldir og kreppur, á meðan fjárfestingabankar hafi farið á hausinn.

En hversu raunhæf er hugmyndin? Ragnar Þór er ekki í vafa. „Það þarf ekki að breyta miklu til að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka,“ segir Ragnar. Vilja þurfi til frekar en flóknar lagabreytingar. „Hann yrði einfaldlega rekinn fyrir fólkið og fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Önnur fyrirtæki, sem ekki njóta bankaábyrgðar ríkisins, gætu verið í áhættusömum fjárfestingum í öðrum bönkum. Þetta væri banki sem vinnur með fólki en ekki á móti því.“ Hann segir að samfélagsbanki væri til þess fallinn að bæta kjör almennings til mun og auka tiltrú og traust á bankakerfinu. Það sé eitthvað sem íslenskir bankar megi svo sannarlega við.

Ragnar hefur gagnrýnt mjög fyrirætlanir um að reisa 9 milljarða króna höfuðstöðvar Landsbankans á einum dýrasta reit landsins, rétt við Hörpu og Arnarhól. Hann hefur bent á að hægt væri að byggja 1.500 hagkvæmar íbúðir fyrir fjárhæðina. „Það er kominn tími til að menn fari að stíga út úr þessum turni sínum – og koma sér niður á jörðina. Það þarf að hætta þessum skýjaborgum í kring um einhverja bankastarfsemi.“ Hann bendir á að í Kópavogi standi fullbúin 16 þúsund fermetra nýbygging, sem kosti 3,6 milljarða króna. Fyrst Íslandsbanki hafi getað flutt starfsemi sína í Smáralind hljóti Landsbankinn að geta farið þangað, fyrir brot af þeirri upphæð sem til stendur að verja í byggingu nýrra höfuðstöðva í miðbænum.

Hann segir að bara umferðarlega séð sé galið að byggja þjónustu Landsbankans upp í miðbænum. Þar sé þung umferð og mikill skortur á bílatæðum. Þá sé verið að byggja stórt hótel og aðra mjög stóra vinnustaði upp á sama blettinum. Það sé engin skömm að því að breyta ákvörðunum sem áður hafi verið teknar í þessu sambandi. „Þetta er hugsunarháttur sem þjóðin hefur hafnað. Við eigum ekki að skammast okkur fyrir að stíga skrefið til baka. Það er engin skömm í því að breyta til.“

Líkast til muni bygging höfuðstöðvanna fara 40-50 prósent fram úr áætlunum, eins og hefð hafi skapast fyrir í opinberum framkvæmdum.

„Við græðum ekkert á flottræfilshætti í dag. Það eru allir búnir að sjá í gegn um þessa starfsemi. Fjármálakerfið þarf að sýna aðhald, auðmýkt og vilja til að vinna í samfélagslegri sátt við umhverfið.“