Föstudaginn 13. janúar ögraði Borgarleikhúsið örlaganornunum með frumsýningu á Macbeth. Óvænt bilun leiddi til þess að tæpra fjörutíu mínútna hlé var gert á sýningu. Samkvæmt gamalli hjátrú má ekki nefna hið fjögur hundruð ára gamla verk á nafn í leikhúsi, ella fer allt í skrúfuna.

„Þetta var svokallaður upsi, varaafl gjarnan notað á tölvubúnað,“ segir Kári Gíslason, skipulagsstjóri Borgarleikhússins, um bilunina sem á sér engin fordæmi. „Hann bilaði og fór að senda út spennuspæka, rafmagnstoppa, sem ollu því að tækin voru að slá út,“ segir hann.

Kári líkir tækinu við gagnnjósnara. „Þetta var tækið sem átti að verja okkur,“ segir hann og hlær. Hléið lengdist í 38 mínútur vegna þess hve vel gestir hússins skemmtu sér frammi. „Það tók góðan tíma að ná fólkinu aftur inn,“ segir hann.

Hjörtur Jóhann Jónsson leikari fer með aðalhlutverkið. Hann sagði í samtali við Fréttavaktina í gær að leikhópurinn hefði haft gaman af uppákomunni. „Þetta var svo hreint og tært leikhús-augnablik. Leikhúsið er list augnabliksins.“