Utanríkisráðherra, ríkissaksóknari og varaframkvæmdastjóri spillingarnefndar Namibíu, funduðu með íslenskum ráðherrum í tengslum við Samherjamálið í gær og fyrradag

Málið, sem hefur verið í gerjun frá árinu 2019, snýst um mútugreiðslur til namibískra ráðherra sem tryggðu Samherja aðgang að fiskveiðikvóta á namibískum miðum. Þær Netumbo Nandi-Ndaitwah, Martha Imalwa og Erna van der Merwe funduðu meðal annars með forsætisráðherra, utanríkisráðherra og aðstoðarmanni dómsmálaráðherra Íslands.

Íslandsför namibíska ráðherrans og rannsakendanna kemur í kjölfar fundar íslenskra og namibískra rannsakenda í höfuðstöðvum Europol í Haag í síðustu viku, þar sem rætt var um Samherjamálið.

„Við getum bara staðfest að fundirnir fóru fram,“ sagði Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari um þann fund. „Þeir voru gagnlegir. Embættin höfðu gagn að því að kanna hvernig mál stóðu hvert hjá hinu.“

Ólafur sagðist að öðru leyti ekki geta gefið upp efni fundarins, aðeins að hann hefði verið með saksóknurum og rannsakendum sem væru að vinna að málinu í Namibíu.

Engar ákærur enn á Íslandi

Ákærur í málinu hafa þegar verið gefnar út í Namibíu en ekki á Íslandi. Ólafur sagðist ekki geta tilgreint hvort namibískir saksóknarar hefðu einhver gögn sem upp á skorti hérlendis.

„Við erum náttúrlega með rannsókn annars vegar á Íslandi og hins vegar í Namibíu. Þetta mætist á ákveðnum sviðum.“

Í tilkynningu í tengslum við heimsókn namibíska ráðherrans gaf Íslandsdeild Transparency International ásamt stofnuninni Institute for Public Policy Research út yfirlýsingu, þar sem hvatt var til þess að Íslendingar sem ættu hlut að málinu yrðu dregnir til ábyrgðar.

Biðlað var til Yvonne Dausab, dómsmálaráðherra Namibíu, að gefa út formlega beiðni um framsal Íslendinganna þriggja sem lýst hefur verið eftir í málinu. Íslensk lög heimila hins vegar ekki framsal íslenskra ríkisborgara úr landi.