Innlent

Hirtu símann af lög­manni Sindra í gagna­vers­málinu

Lögmenn í gagnaversmálinu svokallaða gagnrýna lögreglu í greinargerð sem þeir lögðu fyrir héraðsdóm í morgun. Fyrrum eiginkona annars lögmannsins var látin svara fyrir störf hans, á meðan hinn lögmaðurinn fékk réttarstöðu sakbornings í málinu.

Alls eru sjö ákærðir í málinu. Sindri Þór er þeirra á meðal en hann komst í fréttirnar eftir að hafa strokið úr fangelsi. Lögreglan á Suðurnesjum

Verjendur tveggja sakborninga í gagnaversmálinu svokallaða, þeirra Sindra Þórs Stefánssonar og Matthíasar Jóns Karlssonar, gagnrýna vinnubrögð lögreglu í málinu og segja hana hafa beitt ólögmætum aðferðum við rannsókn málsins. Meðal annars hafi þeir sjálfir verið dregnir inn í málið að ósekju og saka lögreglu um að halda aftur gögnum. Þeir fara fram á að málinu verði vísað frá. 

Látin svara fyrir störf fyrrum eiginmanns

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greinargerð Þorgils Þorgilssonar og Guðna Jóseps Einarssonar, lögmanna Sindra Þórs og Matthíasar, sem þeir lögðu fyrir Héraðsdóm Reykjaness í morgun. Málið snýr að þjófnaði úr gagnaverum hér á landi, en Sindri Þór, sem er einn sjö ákærðu í málinu, komst í fréttirnar eftir að hafa strokið úr fangelsinu að Sogni. 

Sjá einnig: Sindri borgaði sig út úr farbanni og fór til Spánar

Í greinargerðinni segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi „svifist einskis“ við að afla sér upplýsinga um samskipti verjenda og sakborninga í málinu. Meðal annars hafi fyrrverandi eiginkona Guðna Jóseps, sem starfar sem lögreglumaður, verið spurð ítarlega af tveimur rannsóknarlögreglumönnum um vitneskju hennar um samskipti Guðna við skjólstæðing hans í málinu, Matthías Jón. Lögregla hafi gefið þau svör, þegar eftir þeim var leitað, að um væri að ræða starfsmannamál – ekki skýrslutöku. 

Þorgils Þorgilsson og Guðni Jósep eru verjendur tveggja sakborninga í gagnaversmálinu. Fréttablaðið/Ernir

Þá segir að Þorgils Þorgilsson hafi fengið réttarstöðu sakbornings og sími hans haldlagður í tengslum við flótta Sindra. Það sé að sama skapi ólögmæt aðgerð enda hafi lögregla getað komist yfir samskipti hans við Sindra Þór. 

„Hvers rannsakandi hefur orðið áskynja með þessum ólögmætu rannsóknaraðgerðum er óvíst, en ljóst má vera að strax frá upphafi rannsóknar hefur embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum ekki vílað fyrir sér að beita aðferðum sem eru bersýnilega í trássi við lög og brot á mikilsverðum mannréttindum sakborninga,“ segir í greinargerðinni. 

Sjá einnig: „Ég kem fljótlega“

Ákærðu og Þorgils var einnig gert að fara í myndsakbendingu þar sem vitni áttu að benda á þá sem þau kynnu að hafa séð fyrir utan gagnaverin. Ekkert hafi komið út úr þeirri myndsakbendingu og niðurstöðurnar ekki á meðal gagna málsins, sem sæti furðu og gefi til kynna að lögregla sitji á gögnum sem kunni að renna stöðum undir sýknu.

Sindri Þór strauk úr fangelsinu að Sogni, hvar hann sætti gæsluvarðhaldi. Hann var í framhaldinu úrskurðaður í farbann. Sindri losnaði nýverið úr farbanni gegn greiðslu tryggingar og er nú búsettur á Spáni með fjölskyldu sinni. Fréttablaðið/Ernir

„Það að umrædd myndsakbending skuli ekki vera á meðal gagna málsins og sú forsenda rannsakenda að „ekkert hafi komið út úr henni“ sýnir bersýnilega að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur ekki gætt hlutleysis við meðferð málsins og vekur ugg um að fleiri gögn kunni að hafa komið fram sem styðja við sýknukröfu sem hafi þá á sömu hlutdrægu forsendum verið sleppt úr gögnum málsins. 

Þagað þunnu hljóði bróðurpart vikunnar

Þá segir að Sindri og Matthías hafi verið látnir sæta einangrunarvist fyrstu fjórar vikur gæsluvarðhaldsins. Skýrslutökur hafi farið fram einu sinni í viku, á fimmtudögum, og krafa um framlengingu hafi komið á föstudegi. 

„Frá föstudegi til fimmtudags heyrðist ekkert frá lögreglu og engar skýrslutökur áttu sér stað. Í hvert skipti sem óskað var framlengingar bar lögregla því við að ný gögn væru komin fram sem þyrfti að yfirfara og bera undir ákærðu en í reynd komu fá gögn á þessum tíma og lítið var um að gögn væru borin undir ákærðu, þess í stað voru ákærðu sífellt spurðir nánast sömu spurninganna í hverri viku.“ 

Lögmennirnir segja í greinargerð sinni að lögregla hafi fundið þeim allt til foráttu, hindrað aðgengi að gögnum eða haldið þeim lengur en lög leyfa og að um mannréttindabrot sé að ræða. Því sé eðlilegt að málinu verði vísað frá dómi. 

„Ljóst er að sú staðreynd að verjendur hafi ekki enn fengið aðgang að gögnum málsins þegar frestur þeirra til þess að skila greinargerð rennur út er vægast sagt gróft brot á réttindum sakborninga. Með þessu verklagi er möguleiki á að undirbúa vörn ákærðu verulega skertur,“ segir í greinargerðinni.

„Um er að ræða gögn sakamáls sem ákæruvaldið hefur haft undir höndum um langa hríð til þess að kynna sér og nýta við undirbúning málsins, þessu sama ákæruvaldi hefur svo verið uppálagt að tryggja verjendum aðgang að þessum gögnum en verjendur hafa verið alfarið upp á gagnaðila sinn, ákæruvaldið, komið með þann aðgang og er niðurstaðan sú að verjendur fengu eingöngu að kynna sér hluta þeirra gagna. Það er fullkomlega ljóst að þetta fyrirkomualg brýtur í bága við meginreglu sakamálaréttarfars um jafnræði málsaðila.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Dómsmál

Allir neituðu sök í gagn­vers­málinu

Innlent

Segir að Sindri hafi átt að vera frjáls ferða sinna

Lögreglumál

Sindri hefur hlotið fjölda dóma

Auglýsing

Nýjast

Starfsfólk Porsche fékk 1,3 milljónir í bónus

​Lokanir á Lyng­dals­heiði, Hellis­heiði og Þrengslum

Leggja fram þriðja orku­pakkann „á ís­lenskum for­sendum“

„Óbilgirnin er svakaleg“

Élja­bakki og hvassvirði nálgast suð­vestur­hornið

Clio „Besti framleiðslubíllinn“ í Genf

Auglýsing