Gagnaver Verne Global í Reykjanesbæ mun tvöfalda starfsemi sína á þessu ári og fara úr 20 megavöttum í 40.

Þetta tilkynnti Verne eftir að hafa tryggt viðbótarfjárfestingu upp á 93 milljónir dollara, eða 12 milljarða króna, frá breska fjárfestingarfélaginu Digital 9 Infra­structure sem keypti það í september af Íslendingum.

Verne gerði raforkusamning við Landsvirkjun í sumar.

Samkvæmt Tinnu Traustadóttur, framkvæmdastjóra orkusölusviðs Landsvirkjunar, er fjöldi megavatta sem gagnaverinu er tryggður trúnaðarmál samningsaðilanna. Gat Tinna því ekki sagt hvort sú aukning sem Verne tilkynnti nú rúmist innan hans.

Orkuskortur er nú í landinu vegna þurrka og aukinnar eftirspurnar stórnotenda. Hefur Landsvirkjun þurft að skerða orku til álvera og annars iðnaðar vegna hans.

Í desember greindi Landsvirkjun frá því að ekki yrði seld meiri raforka til nýrra eða núverandi viðskiptavina í rafmyntagreftri.

Rafmyntagröftur er enn þá stundaður í gagnaveri Verne en fyrirtækið hyggst fasa hann út í náinni framtíð.