Melrakkasetur Íslands leitar nú að einhverjum sem getur skipt við það á kínverskum peningaseðlum sem stofnunin fékk í gjöf á síðasta ári. Um er að ræða um 300 þúsunda króna verðmæti í myntinni yuan sem kínverskir nemendur skildu eftir til rannsókna á íslenska refnum á Hornströndum.

Um nokkurra ára skeið hafa komið hópar skólanema frá Wycombe Abbey School í borginni Changzhou í Kína, til að upplifa víðernið á Hornströndum. Um tíu nemendur, 18 og 19 ára, og tveir kennarar. Árið 2018 kom hópurinn í fyrsta skipti við á Melrakkasetri Íslands í Súðavík, fékk fræðslu um íslensku refina og hreifst af.

Sæmundur Ámundason, framkvæmdastjóri Melrakkasetursins, segir að setrið taki mest við innlendum skólahópum en einstaka sinnum við erlendum og þá oftast háskólahópum.

„Þau voru búin að tilkynna um komu sína en við bjuggumst ekki við þessari veglegu gjöf frá þeim,“ segir Sæmundur en nemendurnir höfðu safnað peningunum fyrir ferðina. „Það eru mikil viðbrigði fyrir þau að koma frá milljóna borg til Hornstranda þar sem engin föst byggð er. Þar er mikið af ref og hann vakti áhuga þeirra.“

Starfsmenn setursins lentu hins vegar í vanda með gjöfina því enginn hérlendur banki vildi taka við seðlunum. Þá gat kínverska sendiráðið heldur ekki leyst vandann.

„Okkur var bent á að næsti staður sem við gætum skipt seðlunum væri í London,“ segir Sæmundur. „Við vitum heldur ekki hversu auðvelt er að ferðast á milli landa með svona háa upphæð í reiðufé.“ Melrakkasetrið leitar nú að einhverjum sem hefur áhuga á að skipta fénu. Þó að sjálfsagt séu fáir á leiðinni til Kína á þessum tímapunkti þar sem Covid-19 veiran geisar í landinu. Reynt var að hafa uppi á ferðamanninum Wei Li, sem kom hingað til lands til þess að skipta íslenskri smámynt en hafði ekki erindi sem erfiði. Ekki náðist þó í Wei, sem er farinn af landi brott og búinn að gefa smámyntina til góðgerðarmála.

Þangað til tekst að skipta seðlunum liggur gjöfin óhreyfð. „Peningarnir skemmast ekkert,“ segir Sæmundur. Þetta séu ekki krumpaðir seðlar úr búðarkössum, heldur nýir seðlar úr banka.

Nemendurnir góðhjörtuðu ætla að koma aftur á þessu ári og hyggjast færa Melrakkasetrinu gjöf á nýjan leik. „Rektor skólans hefur hins vegar í huga að hafa hana í auðskiptanlegri mynt.“