Seðlabankinn greiddi 132 milljónir króna í námsstyrki frá því í ágúst 2009 til maí á þessu ári. Alls veitti Seðlabankinn 906 námsstyrki á tímabilinu. Er meðalupphæð námsstyrkjanna rúmar 145 þúsund krónur.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær fékk Ingibjörg Guðbjartsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins, háan styrk og laun án kröfu um vinnuframlag árið 2016 til að stunda nám við Harvardháskóla í Bandaríkjunum. Hún sagði upp störfum við bankann að náminu loknu.

Fram kemur í greinargerð sem Arnar Þór Stefánsson lögmaður vann fyrir Seðlabankann að upphaf lega hafi staðið til að greiða Ingibjörgu 12 mánaða laun, en því var síðan breytt eftir tillögu Seðlabankans í námsstyrk og hlutfall af launum.

Í fræðslustefnu Seðlabankans segir að bankinn leggi áherslu á að starfsfólk eigi kost á fræðslu og þjálfun sem auki hæfni þess í starfi. Segir að til að ná þeim markmiðum að efla og viðhalda þekkingu starfsmanna skuli Seðlabankinn verja 1,5 prósentum af greiddum launum starfsfólks árlega til fræðslumála. Þar af eiga framkvæmdastjórar hvers sviðs að ráðstafa 1,2 prósentum.

Fræðslustefnan miðar öll að því að nám starfsfólks sé með þeim hætti að það nýtist bankanum. Ekki er þó sérstaklega tekið fram að starfsmaðurinn sé skuldbundinn að starfa fyrir bankann í tiltekinn tíma að náminu loknu.

Samkvæmt greinargerðinni var Ingibjörg, sem hóf störf við bankann sumarið 2009, óánægð í starfi og ræddi möguleg starfslok við bankann í lok árs 2011. Snemma árs 2012 gerði Ingibjörg munnlegan samning við Má Guðmundsson seðlabankastjóra um að starfa í bankanum í minnst tvö ár í viðbót. Sagði hún upp störfum hjá Seðlabankanum í árslok 2017 að náminu loknu, hafði hún þó í millitíðinni unnið greinargerð fyrir bankann. Var námsleyfið eiginlegur starfslokasamningur en ekki leyfi til þess ætlað að auka hæfni í starfi líkt og kemur fram í fræðslustefnu bankans.

Fréttablaðið hefur óskað eftir að fá afrit af samningi Seðlabankans við Ingibjörgu, úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur sagt að Seðlabankanum sé skylt að af henda skjalið en bankinn hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa. Mun úrskurðarnefndin á næstunni skera úr um hvort málið fari fyrir dómstóla eða ekki.