Fulltrúadeildarþingmaðurinn Matt Gaetz er sagður hafa óskað eftir náðun frá Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fyrir hvers kyns glæpi sem hann kynni að vera ákærður fyrir í framtíðinni en þetta hefur New York Times eftir tveimur aðilum sem komu að viðræðunum.
Gaetz sætir nú alríkisrannsókn vegna gruns um kynlífsmansal og vændi en hann er meðal annars sakaður um að hafa átt í sambandi við sautján ára stúlku. Enn sem komið er hefur hann ekki verið ákærður fyrir neinn glæp og neitar hann sjálfur alfarið sök en hann segir að um sé að ræða rógsherferð gegn sér.
NYT: Matt Gaetz, Loyal for Years to Trump, Is Said to Have Sought a Blanket Pardon
— Jim Sciutto (@jimsciutto) April 7, 2021
“The congressman was at the time under investigation over whether he violated sex trafficking laws, though it was unclear what he knew of the inquiry.” https://t.co/UFgAMQNqzu
Beiðni um náðun hafi ekki tengst rannsókninni
Að því er kemur fram í frétt New York Times á Gaetz að hafa leitað til Hvíta hússins á síðustu dögum Trumps í embætti og óskað eftir náðun fyrir sjálfan sig og stuðningsmenn sína. Á sama tíma höfðu rannsakendur dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafist handa við að yfirheyra aðila tengda Gaetz í tengslum við meinta glæpi hans.
Óljóst er hvort Hvíta húsið eða Gaetz sjálfur hafi vitað af því að hann væri til rannsóknar á þeim tímapunkti en Gaetz greindi ekki frá slíkri rannsókn þegar hann er sagður hafa óskað eftir náðun. Þá er enn fremur óljóst hvort Gaetz hafi rætt beint við Trump um málið. Trump náðaði loks nokkra aðila á síðustu dögum sínum í embætti en Gaetz var ekki þeirra á meðal.
Talsmaður Gaetz neitar því alfarið að hann hafi óskað eftir náðun vegna þeirra mála sem hann sætir nú rannsókn fyrir en talsmaðurinn vísaði til þess að Gaetz hafi einungis hvatt Trump til að náða sem flesta, allt frá sjálfum sér til tígriskóngsins Joe Exotic. „Þessi ummæli hafa verið skjalfest í nokkurn tíma,“ sagði talsmaðurinn.
Neitar að segja af sér
Gaetz var einn helsti stuðningsmaður Trumps innan þingsins og fór hann ekki leynt með óbeit sína á Demókrötum og Repúblikönum sem voru á móti Trump. Þá var hann meðal þingmanna sem stöðvuðu vitnaleiðslur í tengslum við ákærurnar á hendur Trumps til embættismissis með því að ryðjast inn í herbergi þar sem vitni voru kölluð til.
Hann sætir nú mikilli gagnrýni frá öðrum þingmönnum, bæði vegna alríkisrannsóknarinnar og vegna ásakana um að hann hafi sýnt nektarmyndbönd og myndir af konum, meðal annars meðan hann var í þingsal. Örfáir hafa komið Gaetz til varnar, til að mynda þingkonan Marjorie Taylor Greene, sem einnig var dyggur stuðningsmaður Trumps.
Þrátt fyrir gagnrýnina neitar hann að segja af sér sem þingmaður en leiðtogi Repúblikana innan deildarinnar, Kevin McCarthy, gaf það út í síðustu viku að mögulega yrði Gaetz sviptur sætum sínum í nefndum deildarinnar ef ásakanirnar reynast sannar. Þinghlé er nú í Bandaríkjunum en ætla má að málið verði tekið upp í næstu viku þegar þingið kemur aftur saman.
Florida Republican Rep. Matt Gaetz allegedly showed nude photos and videos of women he said he’d slept with to other lawmakers, including while on the House floor, sources tell CNN https://t.co/nL3BB1G8yz
— CNN (@CNN) April 1, 2021