„Undir engum kring­um­stæðum finnst mér eðli­legt að ósk um saka­mála­rann­sókn komi frá pólitískum vett­vangi borgar­stjórnar. Gætum þess hvaða for­dæmi við viljum setja í dag,“ sagði Hildur Björns­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, í um­ræðum um fram­kvæmdirnar um­deildu við Naut­hóls­veg 100 á borgar­stjórnar­fundi í dag. 

Hildur segir að eðli­legt væri að eftir­lits­kerfi borgarinnar yrðu tæmd áður en ráðist yrði í rann­sókn líkt og um saka­mál væri að ræða. 

Íþyngjandi að fá réttarstöðu sakbornings

„Saka­mála­rann­sókn er ekki eina til­tæka úr­ræðið [...] á þessu stigi máls þætti mér eðli­legra, hóf­stilltara og sann­gjarnara að óska fram­halds­út­tektar innri endur­skoðunar á þeim þáttum sem vekja grun um mis­ferli,“ sagði Hildur. Einnig væri æski­legt að borgar­skjala­vörður myndi hefja sjálf­stæða út­tekt á skjala­vörslu borgarinnar og staðan loks tekin að þeim út­tektum loknum áður en borgarlögmanni yrði falið að ganga lengra með málið.

„Það er í­þyngjandi að fá réttar­stöðu sak­bornings í saka­máli. Ætlum við að draga starfs­fólk borgarinnar í gegnum slíkt án þess að hafa ó­yggjandi sannanir um rétt­mæti þess? Rann­sókn málsins hefur ekki náð þeim þroska að slíkar að­gerðir séu rétt­mætar eða tíma­bærar.“ 

Borgarfulltrúar gæti meðalhófs

Vig­dís Hauks­dóttir úr Mið­flokknum og Kol­brún Baldurs­dóttir úr Flokki fólksins hafa lagt fram til­lögu þess efnis að borgar­lög­manni verði falið að vísa skýrslu innri endur­skoðunar borgarinnar til héraðs­sak­sóknara. Ey­þór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins, hefur lýst því yfir að borgar­full­trúar síns flokks muni styðja til­lögu Vig­dísar og Kol­brúnar. Ljóst er að hann og Hildur deila ekki sömu sýn hvað það varðar. 

Hildur sagði að bragga­málið svo­kallaða væri birtingar­mynd enn stærri vanda og að því væri hvergi nærri lokið. Ráðast þyrfti í nauð­syn­legar um­bætur og þá gagn­rýndi hún Dag B. Eggerts­son borgar­stjóra fyrir ummæli hans um að málinu væri lokið. Málinu væri hvergi nærri lokið og sagði hún ummæli hans eima af léttúð. En saka­mála­rann­sókn væri ekki eina til­tæka úr­ræðið og hvetur hún borgar­full­trúa til að gæta meðal­hófs. 

Fundar­hlé stendur nú yfir en gengið verður til at­kvæða­greiðslu um til­lögu Vig­dísar og Kol­brúnar á eftir.