Nýtt frumvarp að lögum sem kynnt hefur verið í Ohio í Bandaríkjunum gæti leyft kennurum að bera skotvopn í skólum eftir svo lítið sem sólarhringsþjálfun. Al Jazeera greinir frá þessu.
Framsögumenn frumvarpsins vonast til þess að vopnaburður kennara eigi eftir að minnka tíðni skotárása í skólum í Bandaríkjunum, en tíðni skotárása í Bandaríkjunum hefur borist til tals eftir skotárásina í Robb-grunnskólanum í Texas þar sem nítján börn og tveir kennarar létu lífið.
Andstæðingar frumvarpsins, sem eru meðal annars stéttarfélag kennara og stéttarfélag lögreglumanna í Ohio segja vopnaburð kennara eiga bara eftir að gera skólana að hættulegri stað.
Mike DeWine, ríkisstjóri Ohio og meðlimur repúblikanaflokksins, segist ætla hiklaust að skrifa undir lögin ef þingið í Ohio samþykkir þau.
Þeir kennarar sem kjósa að bera vopn í skólunum þurfa að ganga undir bakgrunnsathugun þar sem sakavottorð þeirra eru skoðuð meðal annars. Kennararnir þyrftu síðan að sitja átta tíma námskeið á hverju ári til þess að rifja upp.