Yfir­völd í Noregi hafa kallað eftir því að að­gerðir verði hertar enn frekar í Osló vegna út­breiðslu kóróna­veirunnar en þetta kemur fram í frétt norska miðilsins NTB. Raymon Johan­sen, for­seti borgar­stjórnar í Osló, greindi frá því að fundað hafi verið um stöðuna fyrr í dag.

Fyrr í vikunni var til­kynnt um hertar að­gerðir í borginni þar sem allir borgar­hlutar voru flokkaðir sem rauð svæði vegna út­breiðslu veirunnar. Meðal hertra að­gerða voru að að­eins tíu manns mættu koma saman á heimilum, grímu­skylda í al­mennings­sam­göngum, og skráningar­skylda veitinga­staða.

Sam­kvæmt heimildum NTB er aðal­lega verið að skoða það að einka­sam­komur ein­skorðist við fimm manns, skemmti­stöðum verði lokað klukkan 22:00, og að hætt verði við sam­komur mennta- og há­skóla­nema sem tengjast ekki náminu.

Sífellt að skoða alls kyns úrræði

Johan­sen sagðist í sam­tali við NRK ekki geta stað­fest að verið væri að skoða þær að­gerðir en sagði að yfir­völd væru sí­fellt að funda um stöðuna og að litið væri til fjölda smita að hverju sinni. „Ég get stað­fest það að við erum sí­fellt að skoða alls kyns úr­ræði til að draga úr út­breiðslu,“ sagði Johan­sen.

Greindum til­fellum hefur fjölgað tölu­vert síðustu vikur en greint var frá því í sænskum fjöl­miðlum að kúrvan væri að fletjast í borginni. Svein Lie, yfir­maður hjá norska land­læknis­em­bættinu, segir gildandi reglur hafi verið gerðar út frá því að smitum væri að fækka en ef næstu dagar myndu sýna fram á aukningu þyrfti ef til vill að endur­skoða málið.

Þrátt fyrir að Johan­sen hafi ekki viljað stað­festa að nýju reglurnar yrðu til skoðunar stað­festi Lie að sam­komu­tak­markanir sem miðast við fimm manns væru meðal þess sem land­læknis­em­bættið hafi lagt til. Búist er við að næstu dagar ráði því hver næstu skref yfir­valda verða.