Bandarísk stjórnvöld undirbúa sig nú fyrir þann möguleika að endurbólusetningar sé þörf gegn COVID-19. David Kessler, vísindaráðgjafi Joes Biden forseta, segir þetta til skoðunar.

Þá myndu þeir sem eru í áhættuhópum ganga fyrir fari svo að bólusetja þurfi aftur.Forstjóri Pfizer, sem framleiðir bóluefni gegn veirunni, segir „líklegt“ að fólk muni þurfa endurbólusetningu innan árs frá því að það fær seinni skammt af bóluefni fyrirtækisins.

Mögulegt sé að bólusetja þurfi árlega, líkt og er með flensusprautur. Rannsóknir benda til þess að bóluefnin virki lengur en hálft ár en enn er óljóst hve mikið lengur þau veita vernd. Tíðar stökkbreytingar veirunnar sem veldur COVID-19 geri það að verkum að sérfræðingar telja miklar líkur á að árleg bólusetning sé nauðsynleg til að vernda fólk fyrir smiti.