Mikill fjöldi fasteignaeigenda hefur endurfjármagnað húsnæðislán sín og hefur hlutfall óverðtryggðra lána aldrei verið hærra. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti niður í eitt prósent í vikunni sem er það lægsta á öldinni. Með endurfjármögnun á lægri vöxtum er hægt að spara tugi þúsunda króna á mánuði.

Björn Berg Gunnars­son, deildar­stjóri Greiningar hjá Ís­lands­banka, segir um þriðjung lántöku síðustu mánaða vera endurfjármögnun. „Þetta er þróun sem hófst strax þegar vextir tóku að lækka. Fyrirhöfnin og kostnaðurinn við endurfjármögnun er miklu minni en áður og hafa margir áttað sig á því að þetta getur lækkað greiðslubyrðina eða stytt lánstímann,“ segir Björn.

Aldrei fleiri með óverðtryggð lán

Hluti breytir lánum úr verðtryggðum yfir í óverðtryggð. „Óverðtryggð húsnæðislán hafa aldrei verið hærra hlutfall en í dag. Það má að miklu leyti rekja til vaxtastigsins, en það er í fyrsta skipti raunhæft fyrir marga að taka slík lán,“ segir Björn. „Ef þú sérð fram á að lántökukostnaðurinn sé fljótur að koma til baka í þeim vöxtum sem þú sparar þá er það ansi mikill hvati. Það þarf þó einnig að taka mið af mögulegum uppgreiðslukostnaði.“

Hægt er að sækja um endurfjármögnun hjá hvaða banka sem er óháð viðskiptasambandi, mismunandi reglur eru hjá lífeyrissjóðum. Þá eru einnig í boði viðbótarlán hjá bæði Framtíðinni og Arion banka.

Fjártæknivefurinn Aurbjörg hleypti af stokkunum sérstökum lánareikni fyrir endurfjármögnun lána nýverið. Er þar hægt að bera saman eigin lánakjör við öll önnur lánakjör sem eru í boði hér á landi og fá nákvæma krónutölu. „Fólk getur sannarlega sparað háar fjárhæðir með endurfjármögnun,“ segir Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Aurbjargar. „Ég held að besta tímakaup sem fasteignaeigendur geti fengið sé að skoða þetta og gera það á hverju ári þegar fasteignamatið er endurreiknað.“

Staðan á markaðnum er síbreytileg og því er alltaf erfitt að tímasetja hvenær rétti tíminn sé til að endurfjármagna. „Rétti tíminn til að endurfjármagna lán er til dæmis þegar vextir eru orðnir lægri en það sem þú ert að borga,“ segir Auður.

Endurfjármögnun hjálpar atvinnulífinu

Hún bendir á að lækkun á greiðslubyrði geti ekki aðeins gagnast þeim sem glíma við tekjufall vegna faraldursins heldur einnig geti það hjálpað við að koma hjólum atvinnulífsins í gang. „Með endurfjármögnun er hægt að fá fé til framkvæmda, hvort sem það er garðurinn eða ný eldhúsinnrétting.“

Fleiri möguleikar eru í boði, til dæmis að halda sömu greiðslum en stytta í láninu. „Ef þú ert með lán sem þú ræður við að borga af í dag getur þú með því að stytta lánið og endurfjármagna á betri kjörum eignast meira í eigninni í hverjum mánuði,“ segir Björn.

Hann segir að þótt það sé orðið mjög einfalt og þægilegt að ganga frá lántöku á netinu sé alltaf gott að setjast niður með ráðgjafa. „Það er svo margt sem þarf að hafa í huga og því er alltaf best að tala við fagfólk sem getur leiðbeint manni og aðstoðað við helstu ákvarðanir.“