Banda­ríska mat­væla- og lyfja­eftir­litið, FDA, vinnur nú að því að sam­þykkja bólu­efni Pfizer/BioN­Tech að fullu en leyfið gæti legið fyrir síðar í dag að því er kemur fram í frétt New York Times um málið. Vonast er til að leyfið geri það að verkum að fleiri fari í bólu­setningu og bólu­setning verði jafn­vel skylda.

Að því er kemur fram í frétt New York Times myndi leyfið hafa það í för með sér að stofnanir og fyrir­tæki gætu krafist þess að bólu­setning er skylda en þó nokkrar stofnanir, til að mynda skólar, hafa gert það að skil­yrði. Aðrir hafa viljað bíða með að gera bólu­setningu að skyldu þar til bóluefnið hefur verið samþykkt að fullu.

Þá myndi fullt markaðs­leyfi mögu­lega sann­færa ein­stak­linga sem hafa hingað til verið hikandi til að láta bólu­setja sig þar sem bólu­efnið er enn á á­kveðnu þróunar­stigi. Mis­jafnt er eftir ríkjum hversu margir hafa verið bólu­settir en eins og staðan er í dag hafa hátt í 73 prósent Banda­ríkja­manna fengið að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni.

Vivek Murt­hy, land­læknir Banda­ríkjanna, sagði í sam­tali við CNN að fullt markaðs­leyfi myndi hafa á­hrif á milljónir manna sem hingað til hafa verið hikandi. Þá sagðist hann telja að fyrir­tæki og stofnanir myndu gera bólu­setningu að skyldu í ljósi leyfisins, líkt og New York ríki hefur þegar gert.

Bólu­efni Pfizer var fyrsta bólu­efnið gegn Co­vid-19 sem hlaut neyðar­leyfi í Banda­ríkjunum en FDA sam­þykkti bólu­efnið í desember í fyrra, skömmu eftir að Bret­land gaf út neyðar­heimild fyrir bólu­efninu.

Bólu­efnið hefur þó enn ekki verið sam­þykkt að fullu hingað til en neyðar­heimild gildir í eitt ár frá út­gáfu þess. Í Evrópu hefur verið notast við skil­yrt markaðs­leyfi í stað neyðar­heimildar.

Auk bólu­efnis Pfizer er einnig til skoðunar að veita bólu­efni Moderna fullt markaðs­leyfi en það mun lík­lega ekki liggja fyrir fyrr en þó nokkrum vikum eftir bólu­efni Pfizer.

Uppfært 15:00:

FDA hefur tilkynnt að það hafi veitt bóluefni Pfizer fullt leyfi fyrir einstaklinga eldri en 16 ára en það fellur enn undir neyðarheimild hjá börnum 12 til 15 ára.