Sáttanefnd forsætisráðherra hefur enn ekki hafið viðræður um bótafjárhæðir eða forsendur bóta við viðsemjendur sína sem sýknaðir voru af aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálum síðastliðið haust.

Hálft ár er liðið frá sýknudómi Hæstaréttar og skipun nefndarinnar og er þeim sem Fréttablaðið hefur rætt við farið að leiðast nokkuð þófið.

Nefndin fundaði með öllum hlutaðeigandi í janúar og febrúar til að ræða um grunn að sáttum á breiðum grundvelli en peninga mun hins vegar ekki hafa borið á góma á fundum nefndarinnar með fólkinu.

Sáttanefnd í baklás

Fyrir nokkrum vikum mun nefndinni svo hafa borist útreikningar mögulegrar bótafjárhæðar frá einum málsaðila. Framreiknuð niðurstaða útreikningsins er sögð hafa verið svo svimandi há að sáttanefndinni féll allur ketill í eld og algjört hlé varð á sáttaumleitunum.

Heimildir blaðsins herma hins vegar að nú hafi nefndin loks óskað eftir fundum í næstu viku og hyggist nú herða sig upp og ræða mögulegar forsendur og fjárhæðir bóta.

Snúið starf sáttanefndar

Starf nefndarinnar er nokkuð snúið en í ljós kom eftir að nefndin var skipuð, að hún hefur ekki umboð að lögum til að semja um greiðslur bóta úr ríkissjóði. Því þurfti að kalla ríkislögmann til, sem reyndist vanhæfur í málinu vegna föður síns sem var vararíkissaksóknari og kom að meðferð málanna á áttunda áratugnum. Var Andri Árnason hæstaréttarlögmaður settur ríkislögmaður í málinu.

Viðsemjendur nefndarinnar hafa ekki allir jafnan bótarétt, og liggur en ekki fyrir hvort nefndin hyggst leggja til að leitað verði sátta við Erlu Bolladóttur, en henni var einni synjað um endurupptöku

Bætur gætu orðið himinháar

Sé litið til fordæma Hæstaréttar er gætu bótakröfur í málinu orðið himinháar.  

Með vísan til þess að um fordæmalaust mál er að ræða í íslenskri réttarsögu, er ekki hlaupið að því fyrir samningsaðila að gera sér í hugarlund hvernig bótamálið yrði dæmt af dómstólum.

Þrír hinna sýknuðu eru enn á lífi, Kristján Viðar Júlíusson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason. Þeir eiga allir stjórnarskrárvarinn hlutlægan bótarétt vegna frelsisskerðingar að ósekju. Forsætisráðherra hefur lagt áherslu á að sáttum verði náð við þá og einnig aðstandendur Sævars Marinós Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar sem eru látnir.

Á grundvelli eldri fordæma

Tveir dómar sem vísað hefur verið til sem fordæma um bótagreiðslur eru annars vegar svokallað Vegasmál Sigurþórs Arnarsonar sem dæmdar voru bætur í Héraðsdómi Reykjavíkur 2015. Hann var sakfelldur árið 1993 fyrir að verða manni að bana á veitingastaðnum Vegas og sat í fangelsi í 15 og hálfan mánuð. Eftir að Sigurþór vann mál sem hann höfðaði gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu var mál hans endurupptekið fyrir íslenskum dómstólum og Sigurþór sýknaður. Honum voru dæmdar rúmar 18,7 milljónir árið 2015 í skaða- og miskabætur. Dómurinn varpar nokkru ljósi á túlkun lagaákvæða sem tekið hafa breytingum, til dæmis um aukinn bótarétt.

Hins vegar er litið til dóms Hæstaréttar í bótamáli fjögurra manna sem sátu í gæsluvarðhaldi í Síðumúlafangelsi á árunum 1976-1977 vegna rannsóknar á hvarfi Geirfinns. Í dóminum var meðal annars vísað til óforsvaranlegra húsakynna Síðumúlafangelsis og óvæginnar fjölmiðlaumfjöllunar. Miskabætur sem mönnunum voru dæmdar jafngiltu verðmæti einbýlishúss á þeim tíma þegar dómur féll árið 1983 og nema á núvirði að teknu tilliti til verðlagsbreytinga rúmum 23 milljónum, um það bil 224 þúsund krónum fyrir hvern dag. Bætur samkvæmt þessum útreikningi myndu nema mörgum hundruðum milljóna í tilviki flestra þeirra enda var Sævar Marino frelsissviptur í 3059 daga, Kristján Viðar í 2710 daga, Tryggvi Rúnar í 2193 daga, Guðjón í 1800 daga og Albert Klahn í 180 daga. 

Samkvæmt heimildum blaðsins lagði einn viðsemjenda sáttanefndarinnar útreikning bóta á grundvelli þessa fordæmis fyrir nefndina, auk útreiknings bóta fyrir missi atvinnutekna. Ekki heyrðist frá nefndinni um nokkurra vikna skeið eftir að fyrrnefndir útreikningar voru lagðir fyrir hana en ljóst er að niðurstaða útreikninganna hleypur á hundruðum milljóna í tilviki flestra hinna sýknuðu.

Útreikningarnir taka ekki til annarra bóta sem komið gætu til, þar á meðal skaðabætur vegna missis atvinnutekna meðan á frelsissviptingu stóð og eftir atvikum einnig eftir að afplánun lauk með vísan til mannorðsmissis hinna dómfelldu í kjölfar málsins.

Með vísan til þess að fólkið sat inni allt frá 6 mánuðum til rúmlega 8 ára er ljóst að bætur fyrir missi atvinnutekna gætu einnig orðið umtalsverðar.