Jóla­söfnun Hjálpar­starfs kirkjunnar er hafin og eru starfs­fólk og sjálf­boða­liðar nú í óða önn að undir­búa sér­staka að­stoð við fólk sem býr við kröpp kjör. Fólk sem þarf á því að halda fær inn­eign á greiðslu­kort fyrir mat­vörum og fá for­eldrar auk þess að­stoð svo börnin fái jóla- og skógjafir.

„Jólin eru sér­stök hjá okkur. Það er vegna þess að þá kemur hingað stór hópur fólks sem við sjáum bara í desember. Aug­lýsinga­flóðið byrjar strax í nóvember um hvernig við eigum að hafa jólin okkar. Það er afar erfitt sem for­eldri, sem á lítið sem ekki neitt, að standa fyrir framan börnin sín og geta ekki tekið þátt. Fólk leitar því að­stoðar um jólin til að eiga smá­vegis auka­lega,“ segir Vil­borg Odds­dóttir fé­lags­ráð­gjafi, í til­kynningu frá hjálpar­starfi kirkjunnar, en Vil­borg er með um­sjón yfir starfinu innan­lands.

Utan Reykja­víkur er verk­efnið unnið á­samt Hjálp­ræðis­hernum, Rauða krossinum, Mæðra­styrks­nefndir, og kirkju­sóknum víða um land allt, á­samt stuðningi frá ein­stak­lingum, fé­lögum og fyrir­tækjum.

Í ár fengu fjöl­skyldur um allt land inn­eignar­kort og fleira. Talið er að um fimm þúsund manns hafi notið að­stoðarinnar síðustu jól.

„Til­finning mín er sú að nú fyrir jólin fjölgi aftur og ég finn að það gætir meiri ör­væntingar hjá þeim sem sækja til okkar núna,“ segir Vil­borg en hækkandi húsa­leigu, meiri elds­neytis­kostnaði og dýrari matar­körfu fylgja þungar á­hyggjur hjá þeim sem minnst hafa handa á milli.

Tekið er á móti um­sóknum frá barna­fjöl­skyldum í Reykja­vík á skrif­stofu Hjálpar­starfs kirkjunnar, Háa­leitis­braut 66, neðri hæð, þann 1., 2. og 5. desember kl. 10 - 15. Allar nánari upp­lýsingar um að­stoðina er að finna á https://www.hjalpar­starf­kirkjunnar.is/

Hjálparstarfið tekur nú á móti umsóknum um aðstoð fyrir jólahátíðirnar.
Aðsend mynd