Fjögurra stjörnu hers­höfðinginn John Allen hefur nú bæst í hóp banda­rískra hers­höfðingja, líkt og Martin Demps­ey og James Mattis, og gagn­rýnt Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta, harð­lega fyrir fram­göngu hans gagn­vart frið­sömum mót­mælendum í Was­hington. Hann segir fram­ferðið geta verið „upp­hafið að enda­lokum banda­rísku til­raunarinnar.“ CNN greinir frá.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í gær gekk fyrr­verandi ráð­herra í ríkis­stjórn Trump, James Mattis, hart fram gegn for­setanum í að­sendu bréfi á vef­miðlinum The At­lantic. Sagði hann for­setann ala á sundrung og vera hinn fyrsta á sinni lífs­tíð sem það gerir.

Allen tekur í svipaða strengi og Mattis í grein sinni á vef For­eign Poli­cy. Segir hann vonina um bætta fram­tíð Banda­ríkja­manna ekki að finna í Hvíta húsinu. Allen er nú hættur störfum fyrir herinn. Hann stýrði meðal annars Banda­ríkja­her í Afgan­istan og leiddi at­lögu Banda­ríkja­manna gegn hryðju­verka­sam­tökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið þegar Obama var for­seti.

Allen segir mynda­tökur Trump við kirkjuna í Was­hington D.C, eftir að hann hafði látið hrekja frið­sama mót­mælendur til baka með tára­gasi, vera til skammar.

„Donald Trump er ekki trúaður, hefur enga þörf fyrir trú og hún skiptir hann ekki máli nema að því leyti sem hentar honum. For­setinn hefur ekki sýnt fram á til­finninga­greind eða leið­toga­hæfni sem þjóðina sár­lega vantar á þessum erfiðu tíma­mótum,“ skrifar Allen.

„Við vitum öll af hverju hann gerði þetta á mánu­dag. Hann sagði það meira að segja á meðan hann hélt á biblíunni fyrir framan kirkjuna. Þetta er um MAGA, að gera „Banda­ríkin frá­bær aftur.“

Allen segist jafn­framt ekki hafa trúað sínum eigin augum þegar hann fylgdist með at­burða­rásinni í beinni.

„Þetta er það sem gerist í al­ræðis­ríkjum. Þetta er það sem gerist í ó­frjáls­lyndum ríkjum. Þetta gerist ekki í Banda­ríkjunum og við eigum ekki að sætta okkur við þetta.“

Hann hvatti Banda­ríkja­menn til að hlusta á Ter­rence Floyd, bróður Geor­ge Floyd, sem lög­reglu­menn myrtu. Hann hvatti í gær mót­mælendur til að mót­mæla frið­sam­lega og ganga að kjör­borðum í hví­vetna.

„1. júní gæti þannig verið dagur skammar og ógnar ef við hlustum á Donald Trump, en ef við hlustum í staðinn á Ter­rence Floyd, er það dagur vonar.“